1. mar. 2022

Snjómokstur og hálkuvarnir – staðan í dag

Í Garðabæ hefur verið unnið með öllum tækjum og þeim mannskap sem tiltækur er frá kl. 03 á nóttunni langt fram eftir degi í langan tíma til að vinna að snjómokstri og hálkuvörnum

  • Snjómokstur
    Snjómokstur og hálkuvarnir eru í fullum gangi unnið frá nóttu fram eftir degi. Ábendingar um snjómokstur má senda í gegnum ábendingavef Garðabæjar.

Undanfarna daga og vikur er búið að vera mikil vetrartíð á höfuðborgarsvæðinu með óvenjulegu veðurfari þar sem hefur verið mikill snjór og langir kuldakaflar. Í Garðabæ hefur verið unnið með öllum tækjum og þeim mannskap sem tiltækur er frá kl. 03 á nóttunni langt fram eftir degi í langan tíma til að vinna að snjómokstri og hálkuvörnum. Í forgangi er að halda aðalleiðum opnum, hvort sem um er að ræða götur eða stíga. Húsagötur koma þar á eftir og eru þær hreinsaðar eins hratt og hægt er á hverjum tíma.

Staðan í dag 1. mars er þannig að allar stofnleiðir eru í þokkalegu ástandi en sums staðar er unnið að því að gera þær breiðari. Nú þegar búið er að ná tökum á aðalleiðunum hefur verið hægt að einbeita sér að húsagötum í Garðabæ. Í Urriðaholti sem og víðar um bæinn hefur sums staðar myndast klaki sem erfitt er að eiga við en í dag er veghefill og hjólaskófla búin að fara um inngötur í Urriðaholti að brjóta klaka og haldið verður áfram með það verkefni á morgun.

Í dag er t.d. búið að fara í snjómokstur í Bæjargil, Grundir, Fitjar, Mýrar og Túnin, Akra, Byggðir og Álftanes. Á morgun verður haldið áfram og farið í Eskiholt og Hæðahverfi.
Aðalsamgöngustígar hafa verið hreinsaðir niður í malbik.

Ræsi vöktuð og gert við holur

Samhliða snjómokstri og hálkuvörnum síðustu vikur hafa ræsi verið vöktuð alls staðar í bænum og hreinsað í kring um þau til að snjór og vatn eigi greiða leið þar niður þegar spáð er hláku. Einnig er búið að gera við holur víða sem hafa myndast í þessu veðurfari og fylgst með því áfram og brugðist við.

Íbúar eru eindregið beðnir um að færa bíla úr götum og bílastæðum meðfram götum til að liðka fyrir vinnu við snjómokstur eins og hægt er. Vekjum sérstaklega athygli á því að ekki er gott að leggja bílum í snúningsstæðum í íbúðagötum til að tæki komist þar vel um. Í hverfum þar sem framkvæmdir standa yfir getur verið erfitt fyrir snjómoksturstæki að athafna sig þar sem bílar eru allan daginn í íbúðagötum.

Ábendingar vegna snjómoksturs og hálkuvarna

Hægt er að koma ábendingum vegna snjómoksturs og hálkuvarna til Garðabæjar í gegnum ábendingavef umhverfis þar sem hægt er með auðveldum hætti að senda inn upplýsingar um staði, götur þar sem þarf að bæta úr. Íbúar mega gjarnan nýta ábendingavefinn til að benda á það sem þarf að laga eða má betur fara í umhverfinu í Garðabæ. Ábendingar sem sendar eru inn fara beint til Þjónustumiðstöðvar til úrvinnslu.

ÁBENDINGAVEFUR -Smelltu hér til að setja inn ábendingu

Einnig er hægt að hafa samband við þjónustuver Garðabæjar í netfanginu gardabaer@gardabaer.is, netspjalli á vef Garðabæjar, gardabaer.is, eða í síma 525-8500. Athugið að þegar snjóþungir dagar eru getur verið mikið álag í þjónustuverinu.


Hér á vef Garðabæjar er hægtað lesa nánar um verklag við snjómokstur í bænum.