Söguskilti um trjálund Kvenfélags Garðabæjar lítur dagsins ljós
Nýtt söguskilti um trjálund sem Kvenfélag Garðabæjar hefur ræktað upp hefur nú verið sett upp við Steinprýði. Þar sem áður var berangurslegt hraun er nú fallegur trjálundur sem skartaði fallegum haustlitum þegar skiltaafhjúpunin fór fram.
Nýtt söguskilti um trjálundinn við Álftanesveg, sem félagskonur í Kvenfélagi Garðabæjar hafa ræktað upp á síðastliðnum 70 árum, var afhjúpað við notalega stund.
Á skiltinu er stiklað á stóru um skógræktarstarf Kvenfélags Garðabæjar og tilurð söguskiltisins. Á skiltinu segir meðal annars að félagið hafi árið 1955 fengið til umráða rúmlega eins hektara spildu og félagskonur gróðursettu þar um 1500 trjáplöntum. Ávallt lögðu þær mikinn metnað í að sinna lundinum.
Þegar aðkoma að trjálundinum breyttist með tilkomu nýs hringtorgs á Álftanesvegi varð úr að stjórn kvenfélagsins afsalaði sér reitnum til Garðabæjar með samningi undirrituðum 15. maí 2014. Samið var um að eftir að vegaframkvæmdunum lyki skyldi halda aðgengi að skóginum greiðum og reisa söguskilti við lundinum um skógræktarstarf Kvenfélags Garðabæjar.
Nú hefur söguskiltið litið dagsins ljós og eru bæjarbúar og allir náttúruunnendur hvattir til að leggja leið sína í lundinn og njóta útiverunnar. Trjálundurinn er opinn öllum með snyrtimennsku að leiðarljósi.

Erla Bil Bjarnardóttir, fyrrverandi garðyrkjustjóri og síðar umhverfisstjóri Garðabæjar, klippti á borðann með aðstoð Almars Guðmundssonar, bæjarstjóra Garðabæjar, og Stellu Stefánsdóttur, formanns umhverfisnefndar.

Kvenfélagskonur létu smá rigningu ekki stoppa sig og buðu upp á bakkelsi með kaffinu við afhjúpunina.
Kvenfélagið lagði á sínum tíma til borð og bekki í og hefur Garðabær nú komið nýjum bekk fyrir í lundinum. Þar er tilvalið að fá sér sæti með nesti og njóta útiverunnar.