Spjallað um samskipti í forvarnarviku Garðabæjar
Ungmennaráð Garðabæjar fékk nokkra þekkta einstaklinga til að ræða samskipti í áhugaverðu myndbandi sem hefur þann tilgang að skapa umræðu um hvað einkenni góð og heilbrigð samskipti.
Ungmennaráð Garðabæjar lét framleiða afar áhugaverða og fróðlega myndband undir yfirskriftinni „samskipti“. Myndbandið má sjá á Vimeo-rás Garðabæjar.
Hópur ungmenna í Garðabæ setti saman lista af fyrirmyndum í íslensku þjóðfélagi og voru nokkrir þeirra aðila sem rötuðu á listann svo fengnir til að ræða hin ýmsu málefni út frá samskiptum. Ræddu þau tvö og tvö saman og tóku fyrir viðfangsefni á borð við kynlíf, öfundsýki, mörk, lygasögur, áfengi, einelti og hinseginleika.
Myndbandinu er ætlað að vekja ungmenni til umhugsunar um hvað einkenni góð og heilbrigð samskipti. Myndböndin voru sýnd í unglingadeildum Garðabæjar og var gerð þeirra liður í forvarnarviku Garðabæjar sem haldin var 1. – 8. nóvember 2024
Leikstjóri myndbandsins er leikkonan og leikstjórinn Birna Rún Eiríksdóttir. Framleiðsla var í höndum REC Media.
Viðmælendur eru:
- Gummi Kíró og Gerður Huld Arinbjarnardóttir
- Júlíana Sara og Vala Kristín
- Dóra Júlía og Páll Óskar
- Patrekur Jamie og Binni Glee
- Egill Breki og Birta Líf
- Mikael Emil Kaaber og Katla Njálsdóttir