19. jan. 2023

Staða sýnatöku og framkvæmda vegna rakaskemmda í skólum í Garðabæ

„Við höfum sett okkur upp skýrt verkferli, fengið Mannvit með okkur til sýnatöku og eftirlits og í fjárhagsáætlun bæjarins er gert ráð fyrir fjármagni til að sinna viðhaldi við skólana. Við leggjum áherslu á að vera í góðu samtali við foreldra og starfsfólk um þessi mál, en einnig nemendur skólanna. Við bíðum nú eftir niðurstöðum úr sýnatökum og getum þá sett fram nánari aðgerðaráætlun varðandi endurbætur,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.

 

  • Flataskóli
    Flataskóli

Sýnatökum er lokið í Hofsstaðaskóla, Flataskóla og Álftanesskóla til að kanna umfang á rakaskemmdum í skólahúsnæðinu. Verkfræðistofan Mannvit er Garðabæ til ráðgjafar varðandi sýnatökur, úrbætur og aðgerðir.

„Við höfum sett okkur upp skýrt verkferli, fengið Mannvit með okkur til sýnatöku og eftirlits og í fjárhagsáætlun bæjarins er gert ráð fyrir fjármagni til að sinna viðhaldi við skólana. Við leggjum áherslu á að vera í góðu samtali við foreldra og starfsfólk um þessi mál, en einnig nemendur skólanna. Við bíðum nú eftir niðurstöðum úr sýnatökum og getum þá sett fram nánari aðgerðaráætlun varðandi endurbætur,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar. 

Þessa dagana fer fram greining á sýnum en nú þegar hafa verið tekin tæplega 100 efnissýni og DNA/ryksýni í Flataskóla og rúmlega fimmtíu í Hofsstaðaskóla. Niðurstöður sýnatökunnar eiga að liggja fyrir í lok þessa mánaðar, en þá verður hægt að leggja fram aðgerðaráætlun varðandi framkvæmdir og endurbætur í skólunum.

Garðabær vinnur eftir ákveðnum verkferlum ef upp kemur grunur um myglu í húsnæði/mannvirkjum Garðabæjar.

Fimm kennslustofum í Hofsstaðaskóla var lokað fyrir áramótin þar sem mygla greindist í þeim í kjölfar sýnatöku Mannvits. Við Flataskóla var starfsemi frístundaheimilis og tónlistarskóla meðal annars færð til eftir að mygla greindist.

Þá hefur mygla greinst í fyrrverandi starfsmannarými í Álftanesskóla sem hefur verið í takmarkaðri notkun síðastliðin tvö ár og því hefur nú verið alfarið lokað. Rekja má rakaskemmdirnar til ytri klæðningar sem er aðeins á þessu svæði við Álftanesskóla. 

Áhersla á endurbætur húsnæðis

Þrátt fyrir að endanleg aðgerðaráætlun liggi ekki fyrir, fyrr en að loknum sýnatökum eru endurbætur þegar hafnar, þrif hafa farið fram á þeim rýmum þar sem rakaskemmdir voru staðfestar í Hofsstaðaskóla og hófust gluggaskipti í Flataskóla í þessari viku. Fimm færanlegar skólastofur eru að auki komnar í gagnið við Hofsstaðaskóla.

Samkvæmt fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2023 verður stóraukin áhersla á endurbætur á húsnæði og lóðum sveitarfélagsins og áframhaldandi uppbygging innviða. Framlög til endurbóta skólahúsnæðis, íþróttamannvirkja og skólalóða verða þrefölduð milli ára.

Garðabær vekur athygli á að hér má nálgast upplýsingar um málefni skólanna, finna öll gögn og minnisblöð sem eftirlitsaðilarnir Mannvit og Efla hafa sent bænum auk þess að sjá yfirlit yfir þær úrbætur sem þegar hefur verið farið í við Flataskóla.

Bæjarstjóri fundaði í liðinni viku með foreldrafélagi Hofsstaðaskóla og með starfsfólki Flataskóla ásamt fulltrúum Mannvits. Slíkur fundur var einnig haldinn með starfsfólki Álftanesskóla. Þá er næsti fundur með foreldraráði Flataskóla fyrirhugaður í næstu viku. Starfsfólk og forráðamenn fá áfram upplýsingar um stöðu mála, meðal annars með tölvupósti en einnig er velkomið að hafa samband ef spurningar vakna er varða skólahald eða aðgerðir sem verður farið í á skólahúsnæðum bæjarins.