Stækkun á fimm ára deild Sjálandsskóla
Vegna mikillar eftirspurnar hefur verið ákveðið að stækka fimm ára deild Sjálandsskóla og færa hana í sér húsnæði á lóð skólans.
Deildin hófst sem tilraunarverkefni en hefur á stuttum tíma fest sig í sessi og hefur eftirspurn eftir leikskólaplássum verið langt umfram framboð. Á sama tíma hefur börnum á leikskólaaldri fjölgað í Ása- og Sjálandshverfi og því tímabært að koma deildinni fyrir í rúmbetra húsnæði.
Lausar kennslustofur hafa verið settar upp á lóð Sjálandsskóla og með þeim verður hægt að bjóða 60 börnum pláss í vetur.
Þrátt fyrir að deildin flytjist út úr aðalhúsnæði skólans verður áfram þétt og gott samstarf við grunnskólann. Þar verður lögð áhersla á að brúa bilið milli leik- og grunnskólastigs. Aðrar áherslur deildarinnar eru útinám, félagsfærni og samvinna. Þróunarverkefni vetrarins er jóga og samkennd þar sem börnin kynnast gildum eins og ábyrgð, framsýni, virðingu, vináttu, samvinnu og jafnvægi.