Stjarnan bikarmeistari karla í körfubolta
Stjörnumenn unnu á laugardag sigur á Njarðvík í úrslitum bikarkeppni karla í körfubolta. Kvennalið Stjörnunnar tapaði á móti Val.
-
Meistaraflokkur karla í Stjörnunni. MYND: www.karfan.is
Stjörnumenn unnu á laugardag sigur á Njarðvík í úrslitum bikarkeppni karla í körfubolta. Lokatölur urðu 84-68 Stjörnunni í vil. Stjarnan hafði fyrir leikinn þrisvar orðið bikarmeistari og aldrei tapað úrslitaleik.
Stúkan í Laugardalshöll var þétt setin og gátu stuðningsmenn Stjörnunnar horft á tvo leiki í röð þar sem kvennalið félagsins var einnig í úrslitum. Þar mætti Stjarnan Val í skemmtilegum leik þar sem Valur hafði yfirhöndina og vann sigur 90-74.
Skemmtilegri Stjörnu-helgi lokið þar sem annar bikarinn af tveimur kom í Garðabæinn. Við óskum báðum liðum til hamingju með frábæran árangur!