Stofna sögufélag Garðabæjar
Stofnfundur Sögufélags Garðabæjar verður haldinn miðvikudaginn 3. september, í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju. Hlutverk félagsins verður að safna, varðveita og miðla sögu Garðabæjar.
-
Ein gömul og góð mynd úr safni sem sýnir bílastæðið á Garðatorgi.
Hópur áhugafólks vill nú leita eftir því að varðveita sögu Garðabæjar og hefur ákveðið að boða til stofnunar félags um sögu Garðabæjar. Fundurinn verður haldinn í Vídalínskirkju, 3. september klukkan 17:15.
Hugmyndin með stofnun Sögufélags Garðabæjar er að skrá, varðveita og miðla sögu Garðabæjar, með fjölbreyttum, fróðlegum og skemmtilegum hætti að sögn Hrannars Braga Eyjólfssonar, eins stofnmeðlims Sögufélags Garðabæjar. Áhugasamir geta lesið pistil eftir Hrannar Braga á vef Garðapóstsins, þar segir hann nánar frá hugmyndinni að félaginu.
Hrannar segir m.a.: „Við hvetjum alla sem bera hlýjan hug til Garðabæjar og sögunnar til að mæta á stofnfund Sögufélags Garðabæjar hvort sem er til að leggja félaginu lið, fylgjast með, eða einfaldlega sýna áhuga. Með sameiginlegu átaki getum við tryggt að minningar haldist á lofti og sagan lifi áfram. Saga Garðabæjar er ekki aðeins skráð í gömlum skjölum, myndum eða örnefnum, heldur í hjörtum þeirra sem hér hafa lifað og lagt sitt af mörkum í þágu byggðar og samfélags. Með því að varðveita sögu þessa fólks, varðveitum við sjálfsmynd samfélagsins og eflum bæjarbraginn.“
Öll eru velkomin á fundinn, heitt verður á könnunni og boðið upp á léttar veitingar.