Stöndum saman um að minnka líkur á gróðureldum
Þrátt fyrir úrkomu á höfuðborgarsvæðinu undanfarna daga þá hefur ógninni á gróðureldum ekki verið afstýrt þar sem gróður og sina eru ennþá mjög þurr.
-
Slökkt í gróðureldum - mynd frá SHS
Þrátt fyrir úrkomu á höfuðborgarsvæðinu undanfarna daga þá hefur ógninni á gróðureldum ekki verið afstýrt þar sem gróður og sina eru ennþá mjög þurr. Öll meðferð elds er stranglega bönnuð á öllum gróðursvæðum á höfuðborgarsvæðinu, þar með talið í Kjósarhreppi. Í því felst meðal annars að ekki er heimilt að reykja eða notast við verkfæri sem geta skapað neista. Spáin framundan er ekki hagstæð þ.e. ekki er von á mikilli rigningu á næstunni á höfuðborgarsvæðinu og reyndar ekki líklegt að það rigni fyrr en um aðra helgi.
Þessi svæði eru meðal annars inn í hverfum og á útivistarsvæðum sem ná yfir stórt landsvæði og viljum við biðla til almennings að hjálpa okkur að hafa aðgát á þessum svæðum. Ef þið verðið vör við eitthvað sem gæti valdið bruna tilkynnið það strax til 112. Sérstaklega viljum við biðja þá einstaklinga sem eru á flugi yfir þessum svæðum eða eru að taka myndir með drónum að vera vakandi fyrir hugsanlegri eldshættu eða eldum og láta 112 vita ef minnsti möguleiki er á slíku.
Við stöndum frammi fyrir mikilli hættu á gróðureldum þessa dagana vegna lítillar úrkomu og mikilla þurrka. Það er mikið í húfi fyrir okkur og ekki síst náttúruna og mikilvægt að við séum vakandi fyrir mögulegum hættum til að fyrirbyggja fleiri gróðurelda.
Vefur um gróðurelda - forvarnir og fyrstu viðbrögð
Vefur almannavarna - upplýsingar um gróðurelda