5. mar. 2024

Segðu hó!

Innritun, biðlistar, auglýsingaherferð og Vala. Upplýsingar um leikskólamál í Garðabæ.

Margt er að gerast í leikskólaumhverfinu í Garðabæ og starfsumhverfi starfsfólks og barna að taka jákvæðum breytingum. 

Í síðustu viku opnaði nýtt leikskólahúsnæði, Vala var tekin í notkun í febrúar og breytingar á starfsumhverfi leikskóla í Garðabæ tóku gildi nú um mánaðarmótin. Breytingarnar fela það meðal annars í sér að opnunartíma leikskóla Garðabæjar hefur verið breytt og dvalartími barna styttur.

Samhliða því hefur sveigjanleiki foreldra verið aukinn varðandi dvalartíma barna og geta foreldrar skráð mismunandi tíma hvern dag og milli vikna.

Fleiri jákvæðar breytingar tóku gildi og auglýsingaherferð var hleypt af stokkunum til að laða að starfsfólk. Með breyttu starfsumhverfi leikskóla er markmiðið að efla starfsmannahópinn og stuðla að stöðugra leikskólaumhverfi þar sem gæði starfsins eru í fyrirrúmi. 

Notum Völuna

Foreldrar eru hvattir til að kynna sér Völu-leikskólakerfi. Foreldrar sem eiga börn í leikskóla í Garðabæ hafa þegar þurft að skrá sig inn og skrá dvalartíma barna. Vert er að hafa í huga að aðeins þarf að skrá dvalartíma einu sinni og þá er hann skráður til framtíðar, nema foreldrar hyggist gera breytingar á honum.

Foreldrar barna sem eru á biðlista eftir leikskólaplássi í Garðabæ þurfa að fara í Völu, skrá sig inn og kanna hvort val á leikskólum og allar upplýsingar séu réttar í umsókninni. Starfsfólk leikskólanna og/eða þjónustuvers Garðabæjar hefur fengið þjálfun í notkun Völu og eru þau reiðubúin til að aðstoða foreldra og forráðafólk. Það er mikilvægt að yfirfara umsóknir í Völunni þannig að unnið verði með sem réttastar upplýsingar við úthlutun leikskólaplássa.

Einnig er mikilvægt að foreldrar og forráðafólk barna sem ekki hafa lögheimili og fasta búsetu í Garðabæ afskrái umsóknina í Völu svo biðlistinn endurspegli réttar tölur. Nánar á: www.umsokn.vala.is

Biðlisti og innritun

Gert er ráð fyrir að öll börn sem orðin eru eins árs þann 15. ágúst þegar nýtt skólaár hefst, eigi kost á leikskóladvöl. Foreldrar eiga rétt á biðlistagreiðslum frá Garðabæ ef barnið er á biðlista eftir leikskólaplássi og hefur náð 12 mánaða aldri.

Nýjar innritunarreglur kveða á um að börn þurfi að hafa bæði lögheimili og fasta búsetu í Garðabæ til að vera á leikskóla í bænum.

Biðlisti umsókna um leikskólavist er síkvikur og getur breyst dag frá degi. Börn eru tekin inn samkvæmt kennitölum en samtímis á innritun sér stað allt árið af virkum biðlista (það eru börn eins árs og eldri) í laus pláss í leikskólum.

Í mars munu leikskólar bjóða börnum af virkum biðlista í þau pláss sem standa til boða samkvæmt aldri, börnum fæddum 2022 og eldri. Fjöldinn mun ráðast af því hvernig gengur að manna leikskólana, en þar eru jákvæð teikn á lofti.

  • Dagana 4.-11. apríl bjóða leikskólar áfram börnum fæddum 2022 og fyrr leikskólapláss og börnum fæddum á fyrstu mánuðum ársins 2023 frá og með næsta skólaári. Í þessari úthlutun er einnig horft til barna með beiðni um flutning milli leikskóla.  
  • Dagana 7.-14. maí bjóða leikskólar börnum fæddum í ágúst 2023 og fyrr leikskólapláss frá hausti. 
  • Í ágúst bjóða leikskólar börnum af virkum biðlista í þau pláss sem standa til boða, börnum fæddum fyrir ágúst 2023 sem hafa komið síðar inn á biðlista og börnum sem fædd eru á seinni hluta ársins 2023.

Það er von Garðabæjar að leikskólaumhverfi okkar verði enn öflugra með breyttum áherslum í starfsumhverfi skólanna. 

Upplýsingabréf til foreldra og forráðafólks sem eiga börn með leikskólaumsókn