11. sep. 2020

Strætó keyrir frá Ásgarði í Urriðaholt

Leið 22 er ný strætóleið sem fer um Urriðaholtið að Ásgarði í Garðabæ. Þau Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, Gunnar Valur Gíslason, bæjarfulltrúi og fulltrúi Garðabæjar í stjórn Strætó bs, og Björg Fenger, bæjarfulltrúi og fyrrum fulltrúi Garðabæjar í stjórn Strætó bs., fóru í strætó mánudaginn 7. september sl. þegar leiðin var tekin í notkun. 

  • Frá vinstri: Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Björg Fenger bæjarfulltrúi og Gunnar Valur Gíslason bæjarfulltrúi og stjórnarmaður í Strætó ehf.

Leið 22 er ný strætóleið sem fer um Urriðaholtið að Ásgarði í Garðabæ. Þau Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, Gunnar Valur Gíslason, bæjarfulltrúi og fulltrúi Garðabæjar í stjórn Strætó bs, og Björg Fenger, bæjarfulltrúi og fyrrum fulltrúi Garðabæjar í stjórn Strætó bs., fóru í strætó mánudaginn 7. september sl. þegar leiðin var tekin í notkun. 

Þessi nýja leið er ekin samkvæmt nokkuð óhefðbundnu sniði. Í stað hefðbundinna strætisvagna ekur 18 manna smárúta leiðina á annatímum á virkum dögum. Utan annatíma og um helgar er leiðin í pöntunarþjónustu. Með pöntunarþjónustu er hringt í leigubílastöðina Hreyfil og ferð pöntuð amk 30 mínútum fyrir brottför skv. tímatöflu. Greitt er fyrir farið í leigubílnum með Strætókorti, Strætóappinu eða skiptimiða.

Frá Ásgarði eru 3 biðstöðvar við Vífilsstaðaveg: við Garðatorg, við Kirkjulund (Vídalínskirkja/Tónlistarskóli Garðabæjar) og á móts við Asparlund/Markarflöt.
Fjórar biðstöðvar verða í Urriðaholti á leið 22, við Urriðaholtsstræti, Urriðaholtsskóla, við Holtsveg og við Náttúrufræðistofnun Íslands.

Hér má sjá tímatöflur fyrir leið 22 á vef Strætó.

Uppbygging almenningssamgangna - þróunarverkefni í eitt ár

Urriðaholt er eitt nýjasta hverfi Garðabæjar þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað á síðustu misserum. Hátt í 2500 manns búa nú í hverfinu og gert ráð fyrir allt að 4500 íbúum í Urriðaholti þegar það verður fullbyggt. Uppbygging almenningssamgangna í Urriðaholti er þróunarverkefni til eins árs frá september 2020 - september 2021 þar sem nýting á strætóleið 22 verður skoðuð og verkefnið metið með jöfnu millibili til að hægt sé að bæta úr verði þess þörf.

 Strætó leiðakerfi í Garðabæ