Hátíðarkveðja frá bæjarstjóra: „Styttist í það“
Hátíðarkveðja frá bæjarstjóra.
Garðabær skartar sínum fegurstu ljósum og jólaskreytingum þessa dagana. Það er einstaklega gaman að fara í göngutúr í gegnum bæinn okkar og sjá hversu fallega ljósin skína fyrir okkur í þessu mikla skammdegi. Margir íbúar fara „alla leið“ í skreytingunum, aðrir eru hógværari en allt gleður þetta okkur. Þjónustumiðstöð Garðabæjar hefur einnig lagt sig fram um að lýsa upp og fegra bæjarlandið víða í bænum. Mér finnast skreytingarnar á Garðatorgi sérlega vel heppnaðar í ár.
„Styttist í það“ sungu liðsmenn Baggalúts og það er svo margt í bænum okkar sem kyndir undir jólaskapið, jafnvel hjá seinteknum jólabörnum eins og mér. Nefna má Aðventuhátíð Garðabæjar þar sem Barnakór Vídalínskirkju söng, blásarasveit Tónlistarskólans kom fram og ýmislegt fleira. Við kveiktum jólaljósin á jólatrénu á Garðatorgi með virkri aðstoð leikskólabarna, þar er gleðin og eftirvæntingin í sinni tærustu mynd. Ég mætti í jólaboð Skátafélagsins Vífils, en þau hafa þann skemmtilega sið að bjóða sínu fólki og ýmsum bakhjörlum félagsins til hátíðlegs jólaboðs á aðventunni. Það er alltaf skemmtileg og hátíðleg stund. Rekstraraðilar verslana í bænum, bæði á Garðatorgi og annars staðar, hafa einnig lagt sitt af mörkum með ýmsum sérstökum viðburðum og kvöldopnunum. Mig langar til að þakka öllum þeim sem taka þátt í að gera bæinn jólalegri og aðventuna hlýlegri.
Mér er að vísu tíðrætt um þetta, en ég hef notið þess í ár að eiga í góðum og beinum samskiptum við íbúa Garðabæjar. Ég vil ekki hljóma eins og biluð plata en það sem einkennir þessi samtöl er einstakur metnaður fyrir bænum okkar, stöðugt er verið að leita leiða til að bæta þjónustu, umhverfi og samfélagið. Á rúmlega þremur árum höfum við haldið 13 opna íbúafundi um almenn málefni Garðabæjar og ég hlakka til að fara á „flakkið“ snemma á nýju ári og ræða við íbúa. Það verður í þriðja skiptið sem ég flakka um bæinn með kaffibollann, en alltaf fæ ég bæði hvatningu, ábendingar, last og hugljómun! Þetta eru mikilvæg samtöl og það sem er þakkarverðast er að okkur stendur ekki á sama. Garðabær er gott samfélag og við pössum vel upp á það saman.
Okkur er reyndar líka tíðrætt um uppbygginguna í Garðabæ, sem gengur líka mjög vel. Það þykir eftirsóknarvert að búa í sveitarfélaginu. Íbúarnir eru ánægðir með þjónustuna, sem endurspeglast í niðurstöðum þjónustukannana ár eftir ár. Við höldum áfram að byggja upp með það að markmiði að bjóða núverandi og nýjum íbúum framúrskarandi þjónustu.
Talandi um íbúafundina, á þeim ræddi ég áhugaverða greiningu á aldurssamsetningu bæjarins. Við erum til dæmis nokkuð ungt samfélag á íslenskan mælikvarða. Börn á leikskólaaldri eru óvenju mörg hlutfallslega og ég er afskaplega stoltur af árangri okkar í að bjóða þeim leikskólapláss í beinu framhaldi af fæðingarorlofi foreldra. Eldra fólk hefur aðgengi að góðum og fjölbreyttum virkniúrræðum sem styðja við góða heilsu til framtíðar og miðjan okkar, þ.e.a.s. fólk á aldrinum 20-67 ára nýtur þess að borga lágar álögur og hafa aðgengi að góðri þjónustu fyrir fjölskylduna alla.
Við höfum nýlokið við fjárhagsáætlunargerð fyrir næsta ár en hún endurspeglar áframhaldandi góða stöðu bæjarins. Reksturinn er traustur, við sýnum ábyrga fjármálastjórn þar sem skuldaviðmið lækkar um 10 prósentustig og við stillum lántökum mjög í hóf þrátt fyrir mikla uppbyggingu. Við lækkum fasteignaskatta á íbúa og fyrirtæki og leggjum á mun lægra útsvar en önnur stór sveitarfélög. Þetta skiptir máli, enda skilur þetta fjármuni eftir í veskjum íbúanna, sem geta samt sem áður treyst á góða þjónustu og gott samfélag bæjarins.
Árið fram undan ætti að vera bæði hressandi og spennandi. 50 ára afmælisár Garðabæjar er fram undan og auðvitað sveitastjórnarkosningar í vor. Garðabær varð til árið 1976, þegar Garðahreppur fékk kaupstaðarréttindi. Afmælisárið 2026 markar því 50 ár frá stofnun sveitarfélagsins í núverandi mynd. Við afhjúpum dagskrá afmælisársins á nýju ári en ég get upplýst að Garðbæingar eiga von á skemmtilegri, hlýlegri og fjölskylduvænni dagskrá sem spannar allt árið. Menningarlífið í Garðabæ heldur enda áfram að blómstra og hvað er nema tilvalið að halda t.d. enn stærra Jazzþþorp í tilefni þessara tímamóta?
„Styttist í það“ getur átt við um annað en jólahátíðina. Ráðningarsamningur bæjarstjóra er jafnan miðaður við kjörtímabil og minn samningur tekur því enda í júní næstkomandi. Ég er stoltur af vegferðinni hingað til og spenntur fyrir verkefnunum á fyrri hluta næsta árs. Ég hef metnað fyrir bæjarfélaginu, mannlífinu og umhverfinu. Allt byggir þetta á góðu samstarfi við íbúa, starfsfólk og félaga mína í bæjarstjórn, en ekki síður festu í ákvarðanatöku í smáu sem stóru. Ég er þakklátur fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt og hef leitast við að rísa undir því á hverjum degi. Ég mun óska eftir endurnýjuðu umboði íbúa og nýrrar bæjarstjórnar til að gegna embætti bæjarstjóra áfram.
Kæri Garðbæingur, ég vona að nýja árið verði þér og okkur í bænum farsælt. Það er tilvalið að nota hátíðarnar til að skoða stjörnurnar og fræðast um himingeiminn í nýju og glæsilegu stjörnugerði í Heiðmörk sem við vígðum nýlega. Um leið og ég sendi þér og þínu fólki hlýjar hátíðarkveðjur vil ég einmitt minna á boðskapinn í laginu góða:
Sjáðu hvar stjörnurnar loga – á himninum
Lýsa upp byggðir og ból
Bjóða okkur öllum svo góð og gleðileg jól!
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar
