21. apr. 2021

Sumardagurinn fyrsti í Garðabæ

Ekki verður hefðbundin hátíðardagskrá á Sumardaginn fyrsta í Garðabæ vegna samkomutakmarkana. Þrátt fyrir að aðstæður séu með öðrum hætti í ár er ýmislegt sem fjölskyldur geta gert saman í Garðabæ til að fagna sumrinu.

  • Fánaborg með íslenska fánanum

Ekki verður hefðbundin hátíðardagskrá á Sumardaginn fyrsta í Garðabæ vegna samkomutakmarkana en Skátafélagið Vífill hefur yfirleitt haldið skrúðgöngu og skátamessu á þessum degi auk þess sem skemmtidagskrá hefur verið fyrir börnin. Þrátt fyrir að aðstæður séu með öðrum hætti í ár er ýmislegt sem fjölskyldur geta gert saman í Garðabæ til að fagna sumrinu.

Dýrin í Deiglumó

Á sýningunni Deiglumó í Hönnunarsafni Íslands eru margir fallegir gripir búnir til úr leir. Þeir eru litríkir og oft skreyttir með mynstri sem annað hvort er skorið í þá eða málað á. Ef þeir eru skoðaðir nánar sést að það leynast dýr í sumum þeirra, sum kunnugleg en önnur ekki.

Hægt er að nálgast leikinn í afgreiðslu safnsins sem opið er frá 12 – 17.

Sagt frá Fíusól

Kristín Helga, bæjarlistamaður Garðabæjar 2001 og höfundur bókanna um Fíusól fer með gesti á þær slóðir sem bækur hennar urðu til. Hægt er að njóta sögugöngunnar hér: https://vimeo.com/478424560

Leiðsögn um útilistaverk

Nokkur útilistaverka í Garðabæ verða skoðuð og ítarlega sagt frá þeim af Birtu Guðjónsdóttur. Tilvalið er að kynna sér verkin og fara svo í göngutúr að skoða. Leiðsögnin er aðgengileg hér:https://vimeo.com/483489476

Jazzhátíð Garðabæjar

Á sumardaginn fyrsta, 22. apríl, hefst Jazzhátíð Garðabæjar en fyrstu tónleikarnir fara fram klukkan 20:00 á fimmtudaginn og verður streymt beint frá fésbókarsíðu Garðabæjar. Fram koma Sálgæslan og gestir hennar en það eru Sigurður Flosason sem leikur af sinni alkunnu snilld á saxófón, Þórir Baldursson á Hammondorgel, Andrés Þór Gunnlaugsson á gítar og trommuleikarinn knái Einar Scheving. Með sveitinni syngja þau Andrea Gylfadóttir, KK, Jógvan Hansen og Rebekka Blöndal. Flutt verða lög og textar Sigurðar Flosasonar af plötunni Blásýru sem kom út fyrir síðustu jól.

Sund

Báðar sundlaugarnar í Garðabæ eru opnar á Sumardaginn fyrsta en þær eru staðsettar í Ásgarði og við Breiðumýri á Álftanesi. Fjöldatakmarkanir eru í gildi en sundlaugar geta tekið á móti 50% af leyfilegum hámarksfjölda eða um 75 hverju sinni. Fjöldatakmarkanir gilda ofan í heitu pottana og eru sundlaugagestir beðnir um að sýna tillitsemi og virða 2 metra fjarlægðarreglu. 

Útivera

Í Garðabæ eru fjölmörg útivistarsvæði, bæði við strandlengjuna og ofan byggðar sem tilvalið er að nýta sér á Sumardaginn fyrsta. Á kortavefnum er hægt að finna skemmtilegar göngu- og hlaupaleiðir og í leiðsagnarappinu Wappinu má nálgast gönguleiðir í Garðabæ án endurgjalds en þar skiptast leiðirnar í hreyfileiðir og söguleiðir.

Gleðilegt sumar!