28. ágú. 2019

Sundfatavindur í Álftaneslaug

Fyrsta verkefnið sem kosið var áfram í lýðræðisverkefninu Betri Garðabær er orðið að veruleika. Sundfatavindur í sundlaugina á Álftanesi eru nú komnar upp. 

  • Sundfatavindur eru komnar upp í Álftaneslaug
    Sundfatavindur eru komnar upp í Álftaneslaug

Betri Garðabær er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri framkvæmda í nærumhverfi íbúa í Garðabæ. Verkefnið hófst í byrjun árs 2019 og eftir að hugmyndasöfnun lauk í mars sl. voru 27 verkefni á kjörseðli í rafrænum kosningum. 

Kosið var í júní sl. þar sem 13 verkefni fengu brautargengi en íbúar Garðabæjar, 15 ára og eldri gátu tekið þátt í kosningunum. Íbúar fengu tækifæri til að úthluta allt að 100 milljónum í verkefni sem þeir vilja sjá framkvæmd í sveitarfélaginu.

Strax var hafist handa við hönnun og framkvæmdir og nú er fyrsta verkefnið orðið að veruleika. Sundfatavindur í sundlaugina á Álftanesi er verkefni sem fékk 913 atkvæði í kosningum og eru nú komnar upp. Ein sundfatavinda er í kvennaklefanum og önnur í karlaklefanum.

Næsta verkefni sem íbúar munu sjá verða að veruleika er uppsetning aparólu við Hofsstaðaskóla en sú hugmynd fékk 820 atkvæði í kosningunum í vor. Aparólan verður að öllum líkindum komin upp á næstu vikum.

Hér má sjá stöðu framkvæmda á verkefnum sem kosin voru áfram í íbúalýðræðisverkefninu Betri Garðabær vorið 2019. Áætlað er að öllum framkvæmdum verði lokið í ágúst 2020.