4. jún. 2020

Sundlaugin í Ásgarði hlýtur aðgengisverðlaun Sjálfsbjargar

Sundlaugin í íþróttamiðstöðinni Ásgarði í Garðabæ hlýtur aðengisverðlaun Sjálfsbjargar, landssambands hreyfihamlaðra, árið 2020.

  • Ásgarðslaug hlýtur aðgengisverðlaun Sjálfsbjargar
    Ásgarðslaug hýtur aðgengisverðlaun Sjálfsbjargar 2020.

Sundlaugin í íþróttamiðstöðinni Ásgarði í Garðabæ hlýtur aðengisverðlaun Sjálfsbjargar, landssambands hreyfihamlaðra, árið 2020. Aðgengisverðlaun Sjálfsbjargar eru í ár veitt tveimur aðilum og auk Ásgarðslaugarinnar hlýtur smáforritið Löður viðurkenningu. Afhending viðurkenningar um aðgengisverðlaunin fór fram í Ásgarði föstudaginn 29. maí sl. þegar þau Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, og Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Garðabæjar tóku á móti viðurkenningarskjali og blómvendi frá Berg Þorra Benjamínssyni, formanni Sjálfsbjargar.

Búnaður og aðgengi í klefum og sundlaug er fyrsta flokks

Sundlaugin í Ásgarði var tekin í notkun á ný vorið 2018 eftir miklar endurbætur bæði utandyra og innandyra. Í inniklefum karla og kvenna voru teknir í notkun nýir klefar fyrir fatlað fólk og ný lyfta fyrir hreyfihamlaða var sett upp á útisvæðinu til að komast í sundlaugina. Gott aðgengi er einnig í heita og kalda potta auk gufubaðs. Í viðurkennningu Sjálfsbjargar segir að allur búnaður og aðgengi í klefum og sundlaug séu fyrsta flokks.

Hægt er að fara um laugarsvæðið í Ásgarði á þessari 360° mynd.