9. okt. 2024

Sundlaugum lokað vegna bilunar í Nesjavallavirkjun

Bilun í Nesjavallavirkjun veldur því að loka þarf sundlaugum Garðabæjar. 

Loka þarf öllum sundlaugum Garðabæjar, bæði almenningslaugum og skólasundlaugum, vegna bilunar í Nesjavallavirkjun.

Stórnotendur hafa verið beðnir um að skerða notkun heits vatns. Það er gert til þess að tryggja íbúum heitt vatn. Við munum upplýsa um hvenær hægt verður að opna sundlaugarnar aftur. Einnig er hægt að fylgjast með á vef Veitna.

Í tilkynningu frá Veitum segir m.a.:

Bilun varð í Nesjavallavirkjun Orku náttúrunnar í morgun sem orsakaði skerta framleiðslu á heitu vatni. Hluti þeirra véla sem sjá um framleiðsluna eru komnar aftur af stað en virkjunin er ekki á fullum afköstum. Vegna þessa biðja Veitur sem dreifa vatninu til íbúa á höfuðborgarsvæðinu, fólk um að fara sparlega með heita vatnið á meðan á viðgerð stendur.