Sveitarfélög og ríki gera samkomulag um uppfærðan samgöngusáttmála
Styttri ferðatími, minni tafir, aukið umferðaröryggi, áhersla á að draga úr kolefnisspori, stórbættar almenningssamgöngur, fjölgun hjóla- og göngustíga og uppbygging stofnvega eru kjarninn í uppfærðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins
Styttri ferðatími, minni tafir, aukið umferðaröryggi, áhersla á að draga úr kolefnisspori, stórbættar almenningssamgöngur, fjölgun hjóla- og göngustíga og uppbygging stofnvega eru kjarninn í uppfærðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem undirritaður var í dag.
Garðabær og fimm sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes, gerðu í dag samkomulag við íslenska ríkið um uppfærðan sáttmála sem felur í sér uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á svæðinu til ársins 2040.
Sáttmálinn felur í sér sameiginlega sýn fyrir allt höfuðborgarsvæðið, þar sem lögð verður höfuðáhersla á skilvirka og hagkvæma uppbyggingu samgönguinnviða. Markmiðið er að samgöngur á höfuðborgarsvæðinu verði í fremstu röð þannig að svæðið og Ísland allt sé samkeppnishæft um bæði fólk og fyrirtæki.
Skipting fjármögnunar milli ríkis og sveitarfélag verður hin sama og áður, þ.e. sveitarfélög með 12,5% og ríkið 87,5%.
Beint framlag sveitarfélaganna verður 1,4 ma.kr. á ári frá 2024 til og með ársins 2040. Auk þess mun árlegt viðbótarframlag að fjárhæð 555 miljónir kr. bætast við bein framlög sveitarfélaganna frá og með 2025. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu skipta með sér kostnaði á hverju ári miðað við hlutfallslegan íbúafjölda 1. desember árið á undan.
Á sama tíma var undirritað samkomulag um samvinnu um rekstur og stjórnskipulag almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er að efla almenningssamgöngur, m.a. með auknum stuðningi ríkisins, en sameiginlegt félag verður stofnað um skipulag og rekstur.
Verkefni samgöngusáttmálans
Verkefni samgöngusáttmálans skiptast í fjóra meginflokka sem eru: Stofnvegir, Borgarlína og strætóleiðir, göngu- og hjólastígar og verkefni tengd umferðarstýringu, flæði og öryggi. Eftirfarandi er nánari lýsing á verkefnaflokkunum og hlutdeild í samgöngusáttmálanum:
- Stofnvegir – 42%. Ráðist verður í sex stór verkefni við stofnvegi á höfuðborgarsvæðinu til viðbótar við þau þrjú sem lokið er á vegum sáttmálans (stofnvegaverkefni á Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi og Reykjanesbraut).
- Borgarlína og strætóleiðir – 42%. Almenningssamgöngur verða stórbættar með uppbyggingu Borgarlínu í sex lotum. Þjónusta við íbúa verður stöðugt bætt með samþættu leiðaneti strætisvagna og Borgarlínu.
- Hjóla- og göngustígar – 13%. Hjóla- og göngustígum verður fjölgað og þeir bættir verulega í uppfærðum sáttmála, en lagðir verða um 80 km af nýjum stígum til viðbótar við 20 km sem þegar hafa verið lagðir á vegum sáttmálans.
- Umferðarstýring, umferðarflæði og öryggisaðgerðir – 3%. Fjárfest verður áfram í nýrri tækni og búnaði til að bæta umferðarflæði og -öryggi á stofnvegum
Eitt af helstu stofnvegaverkefnum sáttmálans er að Hafnarfjarðavegur í Garðabæ verði í vegstokki með frjálsu flæði umferðar um gatnamót við Vífilstaðaveg og Lyngás.
Sameiginlegt félag um stórbættar almenningssamgöngur
Sveitarfélögin og ríkið undirrituðu samkomulag um samvinnu um rekstur og stjórnskipulag almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Samkomulagið felur í sér aukinn fjárstuðning ríkisins og virkari aðkomu að stjórnskipulagi. Ríkið mun bera þriðjung af rekstrarkostnaði að frádregnum farþegatekjum á móti sveitarfélögunum. Þá mun ríkið veita framlög til orkuskipta í almenningssamgöngum.
Samkomulagið felur í sér að sveitarfélögin og ríkið stofni sameiginlegt félag sem beri ábyrgð á skipulagi og rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Rekstur nýja félagsins mun taka hvort tveggja til hefðbundinna strætisvagnaleiða og Borgarlínu. Stefnt er að því að félagið taki til starfa um næstu áramót.
Þjónusta almenningssamgangna verður efld verulega þangað til nýtt leiðanet kemur að fullu til framkvæmda með Borgarlínunni. Með nýju leiðaneti og Borgarlínu er stefnt að því að sjö af hverjum tíu íbúum verði í göngufjarlægð (400 m frá stoppistöð) frá hágæða almenningssamgöngum sem ganga á sjö-tíu mínútna fresti. Bættar almenningssamgöngur eru lykill að því að bæta lífsgæði íbúa og minnka samgöngukostnað þeirra, bæta flæði umferðar og draga úr mengun.
Um starf viðræðuhóps
Viðræðuhópur ríkis og sveitarfélaga hóf uppfærslu samgöngusáttmálans í mars 2023. Viðræðuhópnum var m.a. falið að uppfæra samgöngusáttmálann og framkvæmdaáætlun, vinna áhrifamat af verkefnasafni sáttmálans og gera drög að samningi um eflingu almenningssamgangna til að tryggja rekstur þeirra á höfuðborgarsvæðinu.
Viðræðuhópur ríkis og sveitarfélaga kallaði til fjölda aðila sem sóttu fundi hópsins auk þess sem haft var umfangsmikið samstarf við Betri samgöngur og Vegagerðina. Ragnhildur Hjaltadóttir, stjórnarformaður Betri samgangna, stýrði viðræðuhópnum.
Nánari upplýsingar og gögn má finna á vef Stjórnarráðsins: