22. feb. 2019

Sýning Listasafns ASÍ stendur yfir í Garðabæ

Sýning Listasafns ASÍ á verkum Hildigunnar Birgisdóttur opnaði laugardaginn 16. febrúar í Garðabæ. 

  • UNIVERSAL SUGAR sýningaropnun
    UNIVERSAL SUGAR sýningaropnun

Sýning Listasafns ASÍ á verkum Hildigunnar Birgisdóttur opnaði laugardaginn 16. febrúar í Garðabæ. Sýningin í Garðabæ er í íbúð að Löngulínu og var fjölmennt við opnunina.  Elísabet Gunnarsdóttir, safnstjóri Listasafns ASÍ, bauð gesti velkomna á sýninguna.  Því næst ávarpaði Sigurður Guðmundsson, varaforseti bæjarstjórnar Garðabæjar, gesti sýningarinnar og einnig tók til máls Drífa Snædal forseti ASÍ. 

Samhliða sýningunni í Garðabæ er önnur sýning í Vestmannaeyjum sem opnaði þennan sama dag. Sýningarnar standa til 28. febrúar og eru opnar alla daga kl. 14 – 17. Sýningin í Garðabæ er að Löngulínu sjá nánari leiðarlýsingu á vef Listasafns ASÍ.

UNIVERSAL SUGAR sýningaropnunSigurður Guðmundsson og Drífa Snædal

Um listamanninn og sýninguna

Hildigunnur Birgisdóttir er annar listamaðurinn sem velst til þátttöku í nýrri sýningaröð Listasafns ASÍ þar sem sýnd eru nýjustu verkin í eigu safnsins. Sýningar Hildigunnar opnuðu samhliða og standa jafnlengi í Garðabæ og Vestmannaeyjum og bera sama nafn, UNIVERSAL SUGAR, á báðum stöðum. Viðfangsefni sýninganna, sem við fyrstu sýn virðast mjög áþekkar, endurspegla á margan hátt samfélagið á hvorum stað fyrir sig og sama má segja um húsnæðið sem þær hýsir. 

Hildigunnur Birgisdóttir (f. 1980) útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2003. Verk hennar hafa verið sýnd í Listasafni Reykjavíkur, Kling & Bang, Nýlistasafninu, Annaellegallery í Stokkhólmi, Gallerí i8 og nú síðast á tvíæringnum Stöðum á sunnanverðum Vestfjörðum.

Listasafn ASÍ

Listasafn ASÍ vinnur nú að því að koma sér upp nýjum sal og á meðan eru sýningar safnsins á eldri og nýrri verkum haldnar í samstarfi við stofnanir og samtök víðsvegar um landið. Kallað er árlega eftir tillögum frá myndlistarmönnum sem vilja taka þátt í nýjustu sýningarröðinni og eitt verkefni valið hverju sinni. Sýningarstaðirnir eru valdir í samvinnu við listamennina sem hlut eiga að máli hverju sinni og eru til skiptis á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum landshlutum.

Samhliða sýningum á nýjustu verkunum í eigu safnsins eru haldin listnámskeið fyrir leik- og grunnskólabörn þar sem unnið er með elstu verkin í safneigninni.