31. jan. 2023

Sýningin Aftur til Hofsstaða opnuð á Safnanótt í Garðabæ

Margmiðlunarfyrirtækið Gagarín hefur um nokkurt skeið unnið að sýningunni Aftur til Hofsstaða sem verður opnuð á Safnanótt, 3. febrúar klukkan 17. 

  • Aftur til Hofsstaða
    Sýningin Aftur til Hofsstaða spannar sögu Garðabæjar frá upphafi landnáms til okkar daga.

Margmiðlunarfyrirtækið Gagarín hefur um nokkurt skeið unnið að sýningunni Aftur til Hofsstaða sem verður opnuð á Safnanótt, 3. febrúar klukkan 17. Sýningin spannar sögu Garðabæjar frá upphafi landnáms til okkar daga. Stór skjár og millusteinn sem þjónar tilgangi stýripinna leiðir gesti í gegnum sýninguna sem er staðsett í rými sem staðsett er á Garðatorgi 7 fyrir framan bókasafn bæjarins. Sýningin tengist Minjagarðinum á Hofsstöðum við Kirkjulund en þar er annar stærsti landnámsskáli sem fundist hefur á Íslandi staðsettur. Ný sýning í Minjagarðinum verður opnuð með vorinu en þar munu gestir geta skyggnst inn í fortíðina í gegnum sérstaka kíkja. Vefurinn afturtilhofsstada.is verður einnig opnaður á Safnanótt en fróðleikur og skemmtiefni tengt lífinu á Hofsstöðum má njóta á vefnum.

Hringur Hafsteinsson einn höfunda sýningarinnar mun segja frá sýningunni á opnuninni en þjóðfræðingurinn Dagrún Ósk Jónsdóttir mun einnig leiða börn í gegnum skemmtileg verkefni og fá þau til að hugsa aftur til landnámstímans en verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði.

Fjölbreytt dagskrá á Hönnunarsafni Íslands á Safnanótt

Föstudaginn 3. febrúar verður ýmislegt um að vera á Hönnunarsafninu en dagskráin hefst klukkan 18 með hönnunarsmiðju fyrir alla fjölskylduna. Hönnuðurnir Auður Ösp Guðmundsdóttir og Kristín María Sigþórsdóttir aðstoða þátttakendur við að setja sig í spor hönnuða og uppfinningamanna og búa til húsgögn í ímyndað heimili. Í vinnustofu safnsins verður keramikhönnuðurinn Ada Stańczak að störfum en hljóðlistamennirnir Otto og Carlo ljá anddyri safnsins tónum. Þá má skoða sýninguna Fallegustu bækur í heimi á Pallinum. Klukkan 20 verður svo sýningin Hönnunarsafnið sem heimilið opnuð en við opnunina leika Jelena Ciric söngkona, Ásgeir Ásgeirsson gítarleikari og Margrét Arnardóttir harmonikkuleikari. Á sýningunni má sjá um 200 dæmi um íslenska hönnun úr safneign Hönnunarsafnsins. Sýningin er sett upp sem grunnmynd af heimili og líkt og á heimilum fólks má sjá þar muni frá mismunandi tímabilum.