26. mar. 2024

Talið niður í Jazzþorpið

Takið frá helgina 3.- 5. maí!

Í annað sinn umbreytist Garðatorg í Jazzþorpið í Garðabæ en Ómar Guðjónsson listrænn stjórnandi hátíðarinnar hefur sett upp spennandi dagskrá sem ætti að draga fólk að til að njóta fjölbreyttra viðburða. Með Ómari starfar Kristín Guðjónsdóttir upplifunarhönnuður þorpsins, Hans Vera ljósmyndari og þúsundþjalasmiður og Ólöf Breiðfjörð menningarfulltrúi.

Líkt og í fyrra verður dagskrá frá hádegi fram á kvöld en opnunarathöfn þorpsins fer fram föstudaginn 3. maí klukkan 18. Á laugardegi og sunnudegi fara fram dagskrárliðir á litla sviði svo sem jazzspjall og tónleikar, meðal annars með nemendum Tónlistarskóla Garðabæjar.

Öll þrjú kvöldin fara svo fram tónleikar á stóra sviði þar sem meðal annars koma fram Tómas R., Bríet, GDRN, Ragnheiður Gröndal, Los Bomboneros, KK og Sigríður Thorlacius.

Aðrir sem koma fram á hátíðinni eru Tríó Kára Egils, Tríó Sunnu Gunnlaugs, Magnús Jóhann og Óskar Guðjóns, Steini og Silva og Tríó Þóris Baldurs.

Líkt og í fyrra verður hægt að næra sig með drykk og mat í Jazzþorpinu en Te og Kaffi, Mói Ölgerðarfélag og Vínstúkan Tíu sopar verða á sínum stað meðal annarra.

Lucky Records verður með plötubúð og að sjálfsögðu verður frábæru samstarfi við Góða Hirðinn haldið áfram. Sú nýbreytni verður að gítarsmiður verður að störfum í Jazzþorpinu og hægt að skoða og kaupa antik-gítara.

Garðbæingar geta látið sig hlakka til litskrúðugs Garðatorgs í byrjun maí sem umbreytist í Jazzþorpið í Garðabæ.