7. apr. 2025

„Þetta verður að vera skemmtilegt“

Yfir sumartímann verður sértæka frístunda- og félagsmiðstöðvaúrræðið Garðahraun að Sumarhrauni. Markmiðið í starfinu er skýrt að sögn verkefnastjóra Garðahrauns. „Þetta verður að vera skemmtilegt og öllum á að líða vel.“

  • Ágúst Arnar Þráinsson er verkefnastjóri í Garðahrauni og Sumarhrauni.

Garðahraun er sértækt frístundar- og félagsmiðstöðvaúrræði fyrir börn í 5.-10.bekk við grunnskóla í Garðabæ sem eiga lögheimili í Garðabæ. Meginhlutverk Garðahrauns er að bjóða upp á fjölbreytt og skapandi tómstundastarf eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur. Á sumrin breytist svo Garðahraun í Sumarhraun, sumarúrræði barna með sérþarfir í 1.-7. bekk í Garðabæ. Í Sumarhrauni er veitt þjónusta sem auðveldar börnum með sérþarfir aðgengi og þátttöku á sumarnámskeiðum. Börn í Sumarhrauni hafa einnig kost á að fara á sértæk sumarnámskeið á vegum Sumarhrauns.

Ágúst Arnar Þráinsson er verkefnastjóri í Garðahrauni og Sumarhrauni.

„Starfið snýst um að veita börnunum tækifæri til að blómstra í þægilegu og skemmtilegu umhverfi. Markmiðið er að öllum líði vel. Þegar maður er á unglingsaldri snúast dagarnir ekki alltaf um að sigra heiminn. Stundum er bara nóg að lesa Andrésblað og slaka á, spjalla við vini og hafa það notalegt. Dagskráin er mótuð í kringum þau sem mæta í Garðahraun. Það er grunnur alls starfs í Garðahrauni: að börnin og unglingarnir fái að móta sína aðstöðu og hafa áhrif á hvernig þeirra dagur verður,“ segir Ágúst.

Sömu áherslur eru í Sumarhrauni en með aukna áherslu á útiveru. „Yfir sumartímann er börnum í 1. til 7. bekk með fötlun boðið að taka þátt í skemmtilegu sumarstarfi. Þá reynum við að vera í góðu sambandi við náttúruna hér á Álftanesi í bland við þá skemmtun sem er í boði á höfuðborgarsvæðinu. Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn er til dæmis mjög vinsæll en okkur finnst líka gaman að fara í bæjarferðir svo dæmi séu tekin.“

Markmiðið í starfinu er skýrt að sögn Ágústs: „Þetta verður að vera skemmtilegt og öllum á að líða vel.“

Umsóknafrestur Sumarhrauns er til 7. maí. Allar nánariupplýsingar um starfið má nálgast hérna.