8. jan. 2026

Tillaga um samfélags- og viðburðahús samþykkt á hátíðarfundi

Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti tillögu um uppbyggingu á samfélags- og viðburðahúsi í bænum á sérstökum hátíðarfundi.

  • Tillaga um samfélags- og viðburðahús samþykkt
    Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti tillögu um uppbyggingu á samfélags- og viðburðahúsi í bænum á sérstökum hátíðarfundi.

Þann 6. janúar voru nákvæmlega 50 ár liðin frá því að bæjarstjórn Garðabæjar fundaði í fyrsta skipti. Í tilefni þess var boðað til sérstaks hátíðarfundar í samkomuhúsinu Garðaholti, þar sem fyrsti bæjarstjórnarfundurinn fór einnig fram.

Í tilefni af 50 ára afmæli Garðabæjar samþykkti bæjarstjórn Garðabæjar að vinna að byggingu samfélags- og viðburðahúss í bænum.

„Markmiðið er að skapa lifandi kjarna þar sem íbúar á öllum aldri og úr ólíkum áttum koma saman – miðpunkt þar sem menning og mannlíf fær að blómstra. Það er okkar von að þarna skapist sveigjanlegt og fjölnota rými sem verði í stöðugri notkun allt árið, en ekki eingöngu við hátíðleg tilefni. Þetta er alveg einstaklega spennandi verkefni. Næstu skref eru meðal annars þau að finna hentuga staðsetningu fyrir húsið og vinna þarfagreiningu,“ segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar, um fyrirhugað samfélags- og viðburðarhús.

_MG_2639_1767821350300

 Í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá því að Garðabær fékk kaupstaðaréttindi var boðað til sérstaks hátíðarfundar bæjarstjórnar í samkomuhúsinu Garðaholti, þar sem fyrsti bæjarstjórnarfundurinn var haldinn árið 1976.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að með nýju samfélags- og viðburðahúsi verði sérstök áhersla lögð á bætta aðstöðu fyrir Bókasafn Garðabæjar og starf með börnum og ungmennum, þar sem leik- og athafnarými verði samþætt menningar- og samfélagsstarfi hússins. Jafnframt verði horft til sameiginlegrar notkunar með Hönnunarsafni Íslands og annarri menningarstarfsemi.

Sannkallaður hátíðarandi sveif yfir vötnum á þessum fyrsta bæjarstjórnarfundi ársins. Öllum núlifandi fyrrverandi bæjarfulltrúum og bæjarstjórum var boðið sérstaklega að sitja fundinn sem gestir.

Boðið var upp á tónlistaratriði og léttar veitingar að honum loknum.

Gunnar Einarsson og Ingimundur Sigurpálsson, fyrrverandi bæjarstjórar Garðabæjar, ásamt Almari Guðmundssyni bæjarstjóra. 

Stór hópur fyrrverandi og núverandi bæjarfulltrúa Garðabæjar náðust saman á mynd.

Ragnheiður Gröndal, Haukur Gröndal, Birgir Steinn Theodorsson og Guðmundur Pétursson fluttu nokkur vel valin lög.