13. nóv. 2023

Tillögur að bættu leikskólaumhverfi til Bæjarstjórnar

Hér má nálgast skráningu á foreldrafundi og nánari upplýsingar um styttri dvalartíma. 

Leikskólastarf í Garðabæ stendur á tímamótum og ljóst er að mikilvægt er að skoða starfsumhverfi skólans, sérstaklega það sem snýr að velferð barna og mannauði. Í Garðabæ er hátt hlutfall starfsfólks leikskóla fagmenntað og er kappkostað við að starfsumhverfi barna og starfsfólks sé fyrsta flokks.

Mannauður leikskóla bæjarins er sterkur en í haust hafa fjölskyldur leikskólabarna fundið mikið fyrir því að mönnun leikskóla hefur ekki verið sem skyldi og beiting fáliðunarreglu hefur verið algengari. Á vormánuðum hóf Garðabær endurskoðun á starfsfumhverfi leikskóla bæjarins til að finna leiðir til að styrkja skólana til faglegs starfs og tryggja að börn njóti þess að vera í leikskólum.

Vinnuhópur skipaður stjórnendum í leikskólum, leikskólafulltrúa og sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs skilaði drögum að tillögum til leikskólanefndar. Leikskólanefnd vann tillögurnar áfram og óskaði meðal annars eftir umsögnum foreldra og starfsfólks um bætt vinnuumhverfi leikskólanna. Tillögur leikskólanefndar voru lagðar fyrir bæjarráð sem hefur nú samþykkt að vísa þeim til bæjarstjórnar á næsta fundi hennar (16. nóvember nk.).

Spurt og svarað um breytingarnar - á íslensku og ensku

Tillögurnar voru kynntar stjórnendum og starfsfólki leikskóla Garðabæjar 7. nóvember, en markmið þeirra er að bæta enn frekar skipulag og starfsumhverfi leikskóla í Garðabæ þannig að tryggja megi stöðugleika í starfinu, farsæld barna og vellíðan starfsfólks. Samhliða þessum breytingum verður farið í sérstakt átak til að fjölga starfsfólki á leikskólum Garðabæjar.

Tillögurnar eru fimmtán og búast má við að þær verði innleiddar í tveimur aðgerðarfösum frá ársbyrjun 2024, en samkvæmt samþykktum Garðabæjar bíða þær samþykkis bæjarstjórnar í næstu viku, 16. nóvember. Þær verða kynntar í heild eftir bæjarstjórnarfundinn meðal annars með fundum með foreldrum.

  Hér má skrá sig á foreldrafundina. 

Samkvæmt úttektum er dvalartími barna á Íslandi einn sá lengsti í Norðurlöndum. Mikilvægt er að auka gæðatíma barna með fjölskyldum sínum og stytta viðveru á leikskólum. Tillögurnar fela því í sér að foreldrar geta valið um sveigjanlegri dvalartíma barna á leikskólum og geta valið lengd hvers dags.

Vistunartími verður sveigjanlegur frá tuttugu tímum og upp í fjörutíu klukkutíma á viku, en það verður hámarks vistunartími barna. Gjaldskrá bæjarins fyrir leikskóladvöl mun einnig taka breytingum, en hún verður ákvörðuð samhliða fjárhagsáætlun bæjarins sem kynnt verður fyrir áramót. Búast má við því að verulegur afsláttur verði veittur af dvalartímum frá 37 tímum á viku og allt niður í 20 tíma. Áfram verður veittur systkinaafsláttur og tekjutengdur afsláttur til foreldra.

Gefin verður afsláttur af leikskólagjöldum velji foreldrar að taka sér lengra orlof en fjórar vikur að sumri með börnunum (tvær auka vikur) og sérstök skráning verður í skólana fyrir börn í vetrar – og jólafríum.

Breyting verður gerð á opnunartíma leikskóla Garðabæjar, en mánudaga til fimmtudaga verða þeir opnir til klukka 16:30. Á föstudögum loka leikskólar klukkan 16:00 og þarf að skrá börn sérstaklega í vistun frá klukkan tvö til fjögur á daginn.

Þá verða leikskólar Garðabæjar lokaðir frá föstudegi viku fyrir páska (í dymbilviku) fram að þriðjudegi eftir páska.

Til að bæta umhverfi leikskólabarna verður grunnmönnun vegna fjölda barna í elstu árgöngum skoðuð með það að markmiði að fækka börnum á hvert stöðugildi. Samhliða því verður starfsumhverfi leikskóla skoðað hvað varðar fjölda fermetra í leikrými barna inni og úti. Lagt verður til að starfsfólk leikskóla fái forgang á leikskóla fyrir börnin sín sem og afslátt af leikskólagjöldum.


Hér má lesa fundargerð Bæjarráðs og finna minnisblað sem lagt var fyrir fundinn. 

„Sem barnvænt samfélag þurfum við að efla áfram okkar góðu leikskóla. Það gerum við með því að tryggja mönnun og búa börnum og starfsfólki enn betra umhverfi. Við þurfum að draga úr álagi á börn og starfsfólk og samhliða því tryggja áfram framúrskarandi faglegt starf í leikskólum Garðabæjar,“ segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar.