Íþróttafólk ársins 2025 – Tilnefningar og umsagnir
Sex konur og sex karlar hafa verið tilnefnd af íþrótta- og tómstundaráði Garðabæjar til íþróttakonu og íþróttakarls Garðabæjar 2025. Umsagnir um þau má finna hér fyrir neðan og þú getur haft áhrif á kjörið.
-
Sex konur og sex karlar hafa verið tilnefnd af ÍTG til íþróttakonu og íþróttakarls Garðabæjar 2025. Hér má lesa umsagnir um þau og þú getur haft áhrif á kjörið.
Sex konur og sex karlar hafa verið tilnefnd af íþrótta- og tómstundaráði Garðabæjar (ÍTG) til íþróttakonu og íþróttakarls Garðabæjar 2025. Almenningi gefst kostur á að hafa áhrif á kjörið með því að taka þátt í vefkosningu sem stendur yfir frá 18. desember 2025 til og með 4. janúar 2026.
ÍTG mun styðjast við niðurstöðu vefkosningarinnar við valið á íþróttafólki ársins 2025. Tilkynnt verður um niðustöðuna á íþróttahátíð Garðabæjar sem fer fram 11. janúar 2026.
Hér fyrir neðan má lesa umsagnir um þau sem hafa hlotið tilnefningu.
Íþróttakarl
Aron Friðrik Georgsson – Kraftlyftingar

Aron keppir í klassískum kraftlyftingum. Hann hafði verið frá keppni vegna meiðsla í talsverðan tíma, en með mikilli þrautseigju og vinnu náði hann að yfirvinna þau og hefur átt frábært ár.
Á Vestur-Evrópumótinu í Finnlandi í september sl. náði hann þriðja sæti í samanlögðum árangri í plús 120 kg flokki ásamt því að vinna bronsverðlaun í hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu.
Á Íslandsmótinu í klassískum kraftlyftingum í október sl. varð hann Íslandsmeistari í plús 120 kg flokki með enn hærri samanlagðan árangur. Það var þó í Finnlandi sem hann tryggði sér keppnisrétt á EM á næsta ári. Framúrskarandi og ánægjulegur árangur eftir erfið meiðsli.
Aron er formaður lyftingadeildar Stjörnunnar og einn af burðarstólpunum í starfi deildarinnar innan vallar sem utan. Hann er mörgum yngri keppendum fyrirmynd og smitar áhuga og ástríðu fyrir íþróttinni til annarra iðkenda.
Gunnlaugur Árni Sveinsson - Golf

Gunnlaugur Árni hefur skipað sér í hóp fremstu áhugamanna heims með frábærum árangri undanfarin tvö ár.
Um þessar mundir er Gunnlaugur í 9. sæti heimslista áhugamanna (WAGR.com) en enginn íslenskur kylfingur hefur náð jafn ofarlega.
Gunnlaugur Árni hefur alfarið einbeitt sér að þátttöku í sterkustu áhugamannamótum erlendis, bæði sem einstaklingur og sem liðsmaður Louisiana State háskólans, þar sem hann er á öðru ári. Í því sterka liði hefur hann þegar tekið stöðu sem fremsti kylfingur liðsins.
Gunnlaugur Árni var valinn í úrvalslið Evrópu í eftirfarandi mótum: St Andrews Trophy – liðakeppni Stóra Bretlands gegn meginlandi Evrópu, 12 leikmenn í hvoru liði. Arnold Palmer Cup - liðakeppni 12 bandarískra háskólakylfinga gegn öðrum 12 utan Bandaríkjanna. Bonallack Trophy – liðakeppni 12 Evrópukylfinga gegn 12 kylfingum frá Asíu og Kyrrahafslöndum.
Gunnlaugur Árni hefur verið tilnefndur til Fred Haskins verðlaunanna af þjálfurum NCAA háskólaliða og fjölmiðlafulltrúum sem fjalla um golf. Fyrri verðlaunahafar Haskins verðlaunanna hafa unnið 33 risamót og yfir 400 atvinnumót um allan heim.
Haukur Helgi Pálsson Briem - Körfubolti

Haukur Helgi hefur verið lykilmaður í árangri meistaraflokks karla á Álftanesi síðustu tímabil. Þar hefur hann spilað stórt hlutverk í árangri liðsins. Haukur Helgi kom til liðsins fyrir tímabilið 2023-2024 sem var fyrsta tímabil Álftanes í efstu deild hjá KKÍ og hefur öll tímabilin verið framlagshæsti íslenski leikmaður liðsins og hefur skilað liðinu í úrslitakeppnina öll árin. Síðasta vor skilaði baráttan liðinu alla leið í undanúrslit þar sem hann leiddi liðið bæði innan vallar og utan sem fyrirliði þess. Auk þess hefur Haukur Helgi verið lykilmaður í velgengni íslenska landsliðsins og er þar enn sem lykilmaður eins og sást greinilega í síðustu landsleikjum sem spilaðir voru núna í nóvember. Haukur Helgi er mikil fyrirmynd í samfélaginu og tekur virkan þátt í öllu starfi félagsins og deildarinnar.
Jón Þór Sigurðsson - Skotíþróttir

Jón Þór hefur hefur tekið fyrsta sæti í flestum kúlugreinum skotfimi á Íslandi á árinu bæði með riffli og að auki með ýmsum gerðum skammbyssu. Hann varð Evrópumeistari og setti nýtt Íslandsmet í 300 metra liggjandi riffli. Þá kom hann með brons heim af HM í sömu grein. Hann tók gull á Smáþjóðaleikunum í Andorra með loftskammbyssu og gull á Evrópubikarmóti í 300 metra liggjandi riffli. Þetta er einstakur árangur Íslendings á alþjóðavettvangi í íþróttum. Valdar niðurstöður móta á árinu: 300m liggjandi riffill - 1. sæti á EM í Chateauroux Frakklandi 1. ágúst 2025. Skor: 599 og 45x, bætti eigið Íslandsmet.
3. sæti á HM í riffilskotfimi í Kaíró, Egyptalandi 17. nóvember 2025.
5. sæti 300m Lapua European Cup Final í Zagreb Króatíu 5. október 2025 s
5. sæti 300m Lapua European Cup Aarhus í Danmörku 22. ágúst 2025
1. sæti 300m Lapua European Cup Chur í Sviss
Nikita Bazev – Latín dansar

Nikita Bazev og Hanna Rún Bazev dansfélagi hans urðu Íslandsmeistari í flokki atvinnumanna í Latín dönsum. Þau urðu í 1. sæti í Valencia á Spáni og hlutu 1. sætið í Calvia á Spáni. Þá urðu þau í 3. sæti á Super grand Prix í Englandi, 2. sæti á stórmóti á Ítalíu, sem kom þeim upp í 1. sæti á heimslista WDSF Professional Latín. En það sem upp úr stendur, er 3. sætið á Evrópumeistaramóti sem haldið var í Róm í byrjun október og 5. sæti á HM sem haldið var í Leipzig seinni partinn í október.
Hanna Rún og Nikita eru með 4.337 stig í efsta sæti heimslistans, 237 stigum á undan næsta pari. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt danspar kemst í efstu sæti á stigalista WDSF.
Ægir Þór Steinarsson - Körfubolti

Árið 2025 verður lengi í minnum haft fyrir körfuboltamanninn Ægi Þór Steinarsson. Í upphafi árs var hann fyrirliði íslenska karlalandsliðsins sem með m.a. fræknum sigri á Ítalíu á útivelli tryggði sig inn á Eurobasket þar sem bestu þjóðir Evrópu kepptu. Vorið endaði var svo engu síðra þegar hann leiddi Stjörnuna til síns fyrsta Íslandsmeistaratitils í sögu deildarinnar eftir magnaða rimmu við Tindastól sem verður lengi í minnum höfð.
Það kom því engum á óvart að Ægir Þór var valinn besti leikmaður Íslandsmótsins vorið 2025. Ægir Þór er mikil fyrirmynd yngri iðkenda Stjörnunnar, er virkur í starfinu og hefur þjálfað marga af yngri flokkum félagsins.
Íþróttakona
Hanna Rún Bazev – Latín dansar

Hanna Rún og Nikita Bazev dansfélagi hennar urðu Íslandsmeistarar í flokki atvinnumanna í Latín dönsum. Þau urðu í 1. sæti í Valencia á Spáni og hlutu 1. sætið í Calvia á Spáni. Þá urðu þau í 3. sæti á Super grand Prix í Englandi, 2. sæti á stórmóti á Ítalíu, sem kom þeim upp í 1. sæti á heimslista WDSF Professional Latín.
En það sem upp úr stendur, er 3. sætið á Evrópumeistaramóti sem haldið var í Róm í byrjun október og 5. sæti á HM, sem haldið var í Leipzig seinni partinn í október.
Hanna Rún og Nikita eru með 4.337 stig í efsta sæti heimslistans, 237 stigum á undan næsta pari. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt danspar kemst í efstu sæti á stigalista WDSF.
Hulda Clara Gestsdóttir - Golf

Hulda Clara hefur verið fremsti kylfingur GKG og landsins undanfarin ár. Hún er landsliðskylfingur og var hársbreidd frá því að tryggja sér þriðja Íslandsmeistaratitilinn í sumar en hafnaði í öðru sæti eftir bráðabana um titilinn. Hulda var sigurvegari Summit League Women's Golf Championship í apríl og varð í öðru sæti á Boilermaker Classic mótinu í mars. Bæði mótin eru í efstu deild NCAA háskólamótaraðarinnar. Sigurinn á Summit League mótinu var hennar annar sigur í háskólagolfinu.
Hulda hefur keppt fyrir University of Denver undanfarin ár en útskrifaðist vorið 2025. Hún lék með kvennalandsliði Íslands á Evrópumóti landsliða í Frakklandi og lék best íslenskra kylfinga liðsins í höggleik. Hún vann síðan alla andstæðinga (3) sína í holukeppninni. Íslenska landsliðið hafnaði í 13. sæti af 20 þjóðum.
Hún lék á Evrópumóti einstaklinga í kvennaflokki sem haldið var í Þýskalandi og hafnaði í 37. sæti af 144 keppendum. Hulda Clara náði hæst í 163. sæti á heimslista áhugamanna kvenna í golfi (wagr.com) en gerðist atvinnumaður í byrjun ágúst og fellur því út af þeim lista.
Ingeborg Eide Garðarsdóttir - frjálsíþróttir fatlaðra

Ingeborg Eide setti eitt Íslandsmet á árinu 2025 í flokki F37 í frjálsíþróttum í kúluvarpi 10.08m þegar hún keppti á Heimsmeistaramóti IPC í frjálsum íþróttum sem haldið var í Nýju Delhi á Indlandi dagana 27. september - 5. október og náði þar 6. Sæti. Hún tók þátt á þremur mótum erlendis árið 2025, 2. sæti með 9.00m á Grand Prix í París í Frakklandi, Grand Prix í Olomouc í Tékklandi endaði hún í 3. sæti með 9.52m. Grand Prix í Tékklandi var fyrsta kvenna Grand Prix mótið í sögunni hjá IPC.
Ingeborg endaði því tímabilið á því að bæta sig í keppni á HM með nýtt Íslandsmet í hennar flokki og í fyrsta skiptið sem Ingeborg kastar yfir 10 metra. Ingeborg hlaut nafnbótina Íþróttakona ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra 2025.
Irma Gunnarsdóttir – Frjálsíþróttir

Irma Gunnarsdóttir náði 3. sæti í langstökki á NM fullorðinna innanhúss sem fram fór í Espoo í Finnlandi í byrjun febrúar. Hún setti einnig glæsilegt Íslandsmet í þrístökki, 13,72 m, þegar hún varð í 2. sæti í Evrópubikarkeppni 3. deildar sem haldin var í Maribor í Slóveníu í lok júní sl. Afrek hennar samsvarar 1.089 stigum samkvæmt stigatöflu Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins. Með þessu er Irma komin í allra fremstu röð frjálsíþróttafólks á Íslandi.
Irma náði einnig frábærum árangri hér á Íslandi. Hún varð Íslandsmeistari í langstökki innanhúss með 6,36 m, sem er besti árangur íslenskra kvenna í greininni á árinu og samsvarar 1.077 stigum samkvæmt stigatöflu Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins. Hún varð jafnframt Íslandsmeistari í þrístökki bæði innan- og utanhúss. Þá er hún einnig liðtæk í kúluvarpi og kastaði lengst 13,21 m á árinu, sem dugði henni í 2. sætið á afrekaskrá ársins.
Lucie Martinsdóttir Stefanikova - Kraftlyftingar

Lucie sem keppir í klassískum kraftlyftingum átti algjörlega frábært keppnisár. Hún náði í bronsverðlaun í samanlögðu í 76 kg flokki á EM á Malaga á Spáni í mars og hlaut einnig gullverðlaun í hnébeygju þar sem hún setti Evrópumet 211 kg. Samanlagt lyfti hún 563,5 kg á mótinu náði þeim merka árangri að verða stigahæsti keppandi frá upphafi í klassískum kraftlyftingum innan íslenskra kraftlyftinga. Þá keppti Lucie á HM í klassískum kraftlyftingum í Chemnitz í Þýskalandi í júní í 84 kg flokki. Þar varð hún í 5. sæti í samanlögðum árangri en hlaut silfurverðlaun í hnébeygju með 220 kg. Hún átti í baráttu um verðlaunasæti í samanlögðu fram í síðustu lyftu.
Þórdís Unnur Bjarkadóttir - Bogfimi

Þórdís Unnur Bjarkadóttir úr BF Boganum í Kópavogi var valin Trissubogakona ársins 2025 af Bogfimisambandi Íslands annað árið í röð. Þórdís átti algerlega glæsilegt ár 2025. Heimsmet og Evrópumet U18, fimm verðlaun á alþjóðlegum mótum ungmenna, fjórum sinnum í fjórða sæti eftir brons bardaga og oftar en ekki náði hún besta árangri sem Íslendingur hefur náð, t.d. með því að vera í 2. sæti í undankeppni EM. Allt þetta til viðbótar við 13 Íslandsmeistaratitla og 18 Íslandsmet í meistaraflokki og flokki ungmenna innan Íslands.
Vafalaust ein af sterkustu frammistöðum sem Íslendingur hefur sýnt í sögu íþróttarinnar.