29. apr. 2024

Tjaldaparið Gerður og Garðar í beinu streymi

Vefmyndavélin sýnir fóðurstað fuglanna þar sem þeir fá að borða tvisvar á dag, klukkan átta að morgni og klukkan 14. 

  • Garðar og Gerður
    Tveir ungar eru komnir hjá Tjaldaparinu, Gerði og Garðari. Garðabær setti í vor upp beint streymi frá þakinu á Garðatorgi og hér er hægt að fylgjast með fuglunum.

Uppfært 3.6.2024: 

Tveir ungar eru komnir hjá Tjaldaparinu, Gerði og Garðari. Garðabær setti í vor upp beint streymi frá þakinu á Garðatorgi, en þar er hægt að fylgjast með fuglunum – og vonandi ungum þegar þeir geta sótt sér sjálfir mat þegar líður á sumarið. Gestir á Garðatorgi verða án efa varir við söng og köll í Tjaldinum sem hrekur aðra fugla á brott til að vernda ungviðið. Ungarnir tveir verða vonandi fleygir á tímabilinu 30. júní – 4. júlí. Myndavélinni er beint að fóðurstað fuglanna, til að trufla ekki varpið. 


Eldri frétt: 
Á þaki Garðatorgs 7, á bæjarskrifstofum Garðabæjar, mætir tjaldapar ár eftir ár og verpir á þaki hússins. Parið hefur fengið nöfnin Garðar og Gerður, en þau hafa vanið komur sínar á þakið að minnsta kosti síðastliðin 10 ár eða svo og reynt að koma upp ungum

Garðabær hefur nú sett upp beint streymi frá þakinu á Garðatorgi, en þar er hægt að fylgjast með fuglunum – og vonandi ungum þegar líður á sumarið.

Arndís Kjartansdóttir, starfsmaður tölvudeildar Garðabæjar, hefur tekið Gerði og Garðar undir sinn verndarvæng og síðustu ár hefur hún gefið fuglunum mjölorma og vatn til að aðstoða parið við að koma ungum á legg.

Ævintýri tjaldparsins á Garðatorgi hafa ekki alltaf endað vel því oft hafa ungarnir dottið niður af þakinu eða mávar hafa tekið þá, en mun meiri stöðugleiki hefur verið hjá Garðari og Gerði eftir að Arndís hóf að fóðra þá. „Með því þurfa þau ekki að fara frá ungunum í leit að æti eins og þau þurftu áður, þá eru ungarnir mun öruggari,“ segir Arndís. 

Þrír ungar urðu fleygir sumarið 2023. Háværar flugæfingar þeirra fóru væntanlega ekki fram hjá gestum Garðatorgs í júnímánuði í fyrra, en líklegast er best að líkja köllum Gerðar og Garðars við bilaða þjófavörn í bíl.

Vefmyndavélin sýnir fóðurstað fuglanna þar sem þeir fá að borða tvisvar á dag, klukkan átta að morgni og klukkan 14. Áætlað er að þeir verpi í kringum lok apríl og að ungar komi úr eggjum í lok maí. Ungarnir eru svo 28 daga að verða fleygir - svo þeir ættu að fljúga af þakinu í lok júní.


Undanfarin ár hafa verið um 2-3 egg í hreiðrinu og verður spennandi að sjá hvernig þeim tekst til í ár,“ segir Arndís. Gerður og Garðar hafa líklegast gert sig heimkomin á þakinu vegna þess að þar er fjörugrjót þar sem auðvelt er að fela hreiður.

Hér er er hægt að fylgjast með ævintýrum Garðar og Gerðar, en vakin er sérstök athygli á fóðurtíma þeirra en myndavélin sýnir aðeins það sjónarhorn. Hægt er að spóla fram og til baka til að fylgjast með parinu á myndbandinu frá Youtube.

Á Fuglavefnum má kynna sér allt um farfuglinn Tjald, en hann þykir bæði hávaðasamur og félagslyndur.