22. jún. 2022

Tjaldungar í fæði hjá tölvudeild Garðabæjar

Á þaki Garðatorgs 7, á bæjarskrifstofum Garðabæjar, mætir tjaldapar ár eftir ár og verpir á þaki hússins. Tjaldurinn hefur ekki farið framhjá starfsfólki á svæðinu en tölvudeild Garðabæjar er með gott útsýni yfir varpstaðinn og fylgist með parinu ár hvert.

  • Tjaldafjölskyldan á þaki Garðatorgs.
    Tjaldafjölskyldan á þaki Garðatorgs.

Á þaki Garðatorgs 7, á bæjarskrifstofum Garðabæjar, mætir tjaldapar ár eftir ár og verpir á þaki hússins. Tjaldurinn hefur ekki farið framhjá starfsfólki á svæðinu en tölvudeild Garðabæjar er með gott útsýni yfir varpstaðinn og fylgist með parinu ár hvert.

Arndís Kjartansdóttir starfsmaður tölvudeildar Garðabæjar segir að tjaldparið hafi verpt á þakið síðan hún hóf störf hjá Garðabæ fyrir átta árum. „Tjaldur getur orðið 45 ára svo þeir gætu þess vegna hafa verpt hér síðan húsið var byggt árið 1995.“

Lífslíkur fugla eru mjög litlar til að byrja með, eggin falla oft frá og ungarnir eru oft étnir eða drepnir snemma. Ævintýri tjaldparsins á Garðatorgi hefur ekki alltaf endað vel því oft hafa ungarnir dottið niður af þakinu eða mávar hafa tekið þá. „Parið verpir yfirleitt 2-3 eggjum. Síðasta sumar voru tveir ungar, annar þeirra datt niður en hinn lifði af og flaug af stað. Tvisvar sinnum höfum við fangað ungana og hjálpað þeim niður á stétt þar sem þeir halda svo á brott,“ segir Arndís.

Lítið fæðuframboð er uppi á þakinu og því reynist það foreldrum stundum um megn að bera mat í ungana eftir því sem þeir stækka, og gæti það mögulega verið ástæðan fyrir því að foreldrarnir ýti ungunum of snemma fram af þakinu áður en þeir verða fleygir.

Tjaldafjölskyldan á þaki Garðatorgs.

Arndís og vinnufélagar hennar hafa í ár fylgst vel með ungunum og gefið þeim að borða á hverjum degi, mjölorma og vatn. Þannig sé ekki pressa á foreldrunum að ýta ungunum niður of snemma. „Ungarnir fæddust 28. maí og miðað við það sem ég hef kynnt mér ættu þeir að vera fleygir ca. frá og með næstu helgi. Ungarnir líta mjög vel út núna og borða vel, og því er ég bjartsýn á að þeir geti flogið sjálfir af stað þegar þeir eru tilbúnir til þess,“ segir Arndís.

Tjaldafjölskyldan á þaki Garðatorgs.