Tillögur um framtíðarskipulag Norðurness á Álftanesi kynntar
Tillögur um framtíðarskipulag Norðurness á Álftanesi voru kynntar á vel sóttum íbúafundi sem haldinn var í Álftanesskóla.
Haldinn var opinn íbúafundur í Álftanesskóla þann 14. janúar, þar sem fram fór forkynning á tillögum um framtíðarskipulag Norðurness á Álftanesi.
Fundurinn var vel sóttur og sátu Björg Fenger formaður skipulagsnefndar, Almar Guðmundsson bæjarstjóri, Guðbjörg Brá Gísladóttir sviðsstjóri umhverfissviðs Garðabæjar og Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsstjóri fyrir svörum íbúa ásamt Þráni Haukssyni, landslagsarkitekt f.h. Arkís og Landslags.
Um er að ræða deiliskipulagstillögu sem nær til Breiðabólstaðasvæðis, Eyrar, Kasthúsatjarnar og svæðisins umhverfis Eyvindarholt, Stekk, Asparvík og Tjörn, allt að landamörkum við Bessastaði og Akurgerði, auk breytingar á Aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 sem nær til sama svæðis. Tillögurnar gera ráð fyrir íbúðabyggð, útivist, verslun og þjónustu, auk stækkunar á íþróttasvæði þar sem meðal annars er gert ráð fyrir 9 holu golfvelli.
Tillögurnar eru nú aðgengilegar á vef Garðabæjar sem og í Skipulagsgátt. Íbúum og öðrum hagaðilum gefst kostur á að senda inn skriflegar ábendingar til og með 11. febrúar næstkomandi.
Norðurnes, Álftanesi - Aðalskipulagsbreyting
Tillöguna má nálgast hér á vef skipulagsgáttar.
