8. nóv. 2019

Dikta spilar á Tónlistarveislu í skammdeginu

Tónlistarveisla í skammdeginu á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar verður haldin á ný fimmtudaginn 14. nóvember í göngugötunni á Garðatorgi. Í tónlistarveislu ársins er það hljómsveitin Dikta sem stígur á svið.

  • DIKTA
    DIKTA

Tónlistarveisla í skammdeginu á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar verður haldin á ný fimmtudaginn 14. nóvember í göngugötunni á Garðatorgi. Í tónlistarveislu ársins er það hljómsveitin Dikta sem stígur á svið.

Hljómsveitin Dikta var stofnuð í Garðabæ árið 1999 og hefur á síðustu 20 árum skipað sér sess á meðal vinsælustu hljómsveita landsins. Hljómsveitin fagnar einmitt 20 árum í ár og hélt afmælistónleika í Eldborg, Hörpu í júní á þessu ári. Þetta er einnig 10 ára afmæli plötunnar Get It Together, sem innihélt m.a. lögin Thank You, From Now On og Goodbye, sem hljómuðu títt á öldum ljósvakans. Platan seldist í bílförmum og hlaut hljómsveitin platínuplötu fyrir. Dikta hefur á ferli sínum tvisvar hlotið verðlaun sem vinsælasti flytjandinn á ,,Íslensku tónlistarverðlaununum“. Hljómsveitin hefur komið víða við, gefið út fimm breiðskífur, haldið í mörg tónleikaferðalög utan landsteinanna og spilað á öllum helstu tónleikasviðum landsins. Í maí 2011 fékk Dikta það hlutverk að spila á opnunartónleikum Eldborgarsalsins í Hörpu og varð fyrsta rokkhljómsveitin til að spila í tónlistarhúsinu.

Tónlistarveisla í skammdeginu er nú haldin í sautjánda sinn á Garðatorgi. Að venju verður borðum og stólum raðað upp á torginu og gestir geta keypt sér veitingar á staðnum frá Lionsmönnum en tónleikarnir byrja klukkan 21 og standa í rúman klukkutíma.

Á fimmtudagskvöldinu 14. nóvember geta gestir og gangandi einnig skoðað myndlist á Garðatorgi í Gróskusalnum frá kl. 20-23. Myndlistarmenn úr Grósku opna samsýningu undir yfirskriftinni ,,Flækjur“ um kvöldið og sýningin verður opin fram eftir kvöldi fyrir tónleikagesti. Eins og fyrri ár verða einhverjar verslanir með opið lengur í tilefni kvöldsins.

Aðgangur að tónlistarveislunni er ókeypis og allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Viðburður á fésbókarsíðu Garðabæjar.