26. mar. 2019

Tónverkið ,,Djákninn á Myrká" frumsýnt í Garðabæ

Tónverkið ,,Djákninn á Myrká“ var frumsýnt fyrir fullu húsi í sal Tónlistarskóla Garðabæjar 13. mars sl. Um var að ræða sýningar fyrir nemendur í 3. bekk í grunnskólum Garðabæjar á vegum verkefnisins ,,List fyrir alla“.

  • Djákninn á Myrká  - List fyrir alla
    Djákninn á Myrká - List fyrir alla

Tónverkið ,,Djákninn á Myrká“ var frumsýnt fyrir fullu húsi í sal Tónlistarskóla Garðabæjar 13. mars sl. Um var að ræða sýningar fyrir nemendur í 3. bekk í grunnskólum Garðabæjar á vegum verkefnisins ,,List fyrir alla“. Alls var hátt í 300 nemendum í Alþjóðaskólanum, Barnaskóla Hjallastefnunnar, Álftanesskóla, Flataskóla, Hofsstaðaskóla, Sjálandsskóla og Urriðaholtsskóla boðið að koma og sjá tónverkið.

Djákninn á Myrká  - List fyrir alla

Djákninn á Myrká eftir Huga Guðmundsson

Tónverkið ,,Djákninn á Myrká“ eftir Huga Guðmundsson var flutt í fyrsta sinn á Íslandi með sýningunni í Garðabæ en verkið hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um barnaverk á Norrænum Músíkdögum í Finnlandi árið 2013. Höfundurinn Hugi Guðmundsson var viðstaddur frumsýninguna en hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlaun fyrir list sína. Þess má geta að Hugi bjó í Garðabæ í æsku og stundaði m.a. nám við Tónlistarskóla Garðabæjar en hann býr nú og starfar í Danmörku sem tónskáld.
Tónlistarhópurinn sem flutti tónverkið var skipað þeim Sverri Guðjónssyni sögumanni, Pétri Jónassyni á gítar, Hauki Gröndal á klarinett og Þórdísi Gerði Jónsdóttur á selló. Verkið var einnig sýnt nýverið fyrir nemendur í Reykjanesbæ og Hafnarfirði.

List fyrir alla

Verkefnið ,,List fyrir alla“ er á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og er ætlað að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.