15. okt. 2021

Umhverfisviðurkenningar Garðabæjar 2021

Eigendur 5 lóða íbúðarhúsnæðis fengu viðurkenningar fyrir snyrtilegar lóðir 2021. Viðurkenningu fyrir snyrtilega lóð fyrirtækja og stofnana fékk veitingahúsið Sjáland og Vattarás var útnefnd snyrtilegasta gatan í ár. Viðurkenningu fyrir góðan og eftirtektarverðan árangur sem tengist flokkun og betri úrgangsstjórnun hlutu hjónin Þóra Margrét Þorgeirsdóttir og Ögmundur Hrafn Magnússon og fjölskylda.

  • Afhending umhverfisviðurkenninga 2021
    Afhending umhverfisviðurkenninga 2021

Eigendur 5 lóða íbúðarhúsnæðis fengu afhentar viðurkenningar fyrir snyrtilegar lóðir 2021, við hátíðlega athöfn í Sveinatungu á Garðatorgi, þriðjudaginn 5. október sl. Viðurkenningu fyrir snyrtilega lóð fyrirtækja og stofnana fékk veitingahúsið Sjáland og Vattarás var útnefnd snyrtilegasta gatan í ár.

Umhverfisnefnd Garðabæjar auglýsir ár hvert eftir ábendingum um snyrtilegt umhverfi og fer í garðaskoðun á sumrin þegar ábendingar hafa borist frá íbúum. Sumarið hér sunnanlands hefur verið nokkuð svalt og því gróður verið seinn að taka við sér en margir íbúar hafa ekki látið það á sig fá og sinnt garðvinnunni þannig að eftir því er tekið.

Viðurkenning fyrir árangur tengdum flokkun og betri úrgangsstjórnun


Í ár var einnig í fyrsta sinn veitt ný viðurkenning fyrir góðan og eftirtektarverðan árangur sem tengist flokkun og betri úrgangsstjórnun. Þá viðurkenningu hlutu hjónin Þóra Margrét Þorgeirsdóttir og Ögmundur Hrafn Magnússon og fjölskylda sem eru búsett á Álftanesi. Þau hafa síðustu ár markvisst minnkað heimilissorpið með því að kaupa minna og kaupa vistvænt. Þau halda úti vefnum ,,Minna sorp: lærdómsferli fjölskyldu“ þar sem þau miðla af reynslu sinni og vekja athygli á góðum ráðum til að stuðla að betra og vistvænna umhverfi.

Umhverfisvidurkenningar_051021-9-Medium-

Viðurkenningar fyrir lóðir íbúðarhúsnæðis 2021

Garðaflöt 19

Fallegur garður, sannkallaður sælureitur. Íbúar í Garðaflöt 19 hafa greinilega mikinn metnað í að hafa lóðina snyrtilega. Hreinar stéttar, trjábeð og grasflöt í góðu viðhaldi. Trépallar og girðingar gera umhverfið hlýlegt, malarbeð og hlaðinn grjótveggur stílhreinn. Skemmtilegt er að sjá hænur á vappi í gömlum garði sem hefur fengið svona mikla endurnýjun.

Gardaflot19_sumar2021-1-
Markarflöt 15
Eigendur Markarflatar 15 eru frumbýlingar (byggingarár 1967). Frá upphafi hafa þau byggt upp skrúðgarð á lóðinni, sem þróast hefur með árunum og betra skjóli. Þau hafa gefið bænum trjágróður á opin svæði til að geta komið fyrir nýjum áskorunum í safnið þeirra, er telur um 600-700 tegundir sem þau þekkja með nöfnum, íslenskum og latneskum. Garðurinn er engum líkur á ekki stærri lóð. Gróðrinum er haldið í skefjum með klippingum, svo allar plöntur fái notið sín, enda prýða garðinn fjöldi trjáa, runna og blóma. Gróðurskálar eru bæði sunnan við húsið og norðan megin því anddyrið er einnig gróðurskáli. Þó mest sé að sjá innan garðsins, þá er götumyndin líka smekkleg. Þau hafa fengið viðurkenningu umhverfisnefndar nokkrum sinnum áður, árin 1988, 2001 og 2013. Þess má geta að 1988 var fyrsta árið sem umhverfisnefnd veitti þessa viðurkenningu.

Umhverfisvidurkenningar_051021-1-Medium-

Markarflot15_sumar2021-12- 
Norðurtún 10
Vel viðhaldinn fallegur garður með stórum gróðurbeðum sem eru þakin blómstrandi fjölæringum, Gróðurhús með matjurtaræktun, snyrtilegar grasflatir og stéttar. Trépallar, skjólgirðingar ásamt vel viðhaldinni fallegri lóð gerir Norðurtún 10 að sannkölluðum sælureit.

Umhverfisvidurkenningar_051021-2-Medium-

Nordurtun10_sumar2021-4-
Strikið 1 (fjölbýli)

Lóðin við Strikið 1 er vel hönnuð í stíl við húsið sem er eitt fallegasta fjölbýli Garðabæjar. Snyrtileg og stílhrein lóð sem er vel við haldið. Strikið 1 er nýlegt fjölbýli sem vekur athygli fyrir glæsilega hönnun á húsi og lóð og með áframhaldandi góðu viðhaldi mun Strikið 1 verða Garðabæ áfram til sóma.

Umhverfisvidurkenningar_051021-5-Medium-

Strikid10_sumar2021-6-
Víðilundur 2
Lóð umhverfis Víðilund 2 er snyrtileg og falleg með athyglisverðum trjám og runnum. Eigandi hefur greinilega áhuga fyrir garðrækt því tegundaval er mjög spennandi. Inni á lóð er leiksvæði og sælureitur fyrir börn á öllum aldri (0-100 ára+). Glæsilegur pallur með bekkjum og heitum pott. Malarsvæði með stiklum og hraunhellum út í lóðarmörk, eru hrein og snyrtileg. Lóðin er snyrtileg innan og utan girðingar, Garðabæ til sóma.

Umhverfisvidurkenningar_051021-3-Medium-

Vidilundur2_sumar2021-2-

Viðurkenning fyrir snyrtilega lóð fyrirtækis 2021


Sjáland - veitingahús

Veitingahúsið Sjáland hóf starfsemi árið 2020. Snyrtilegt umhverfi er mikilvægur þáttur í rekstri veitingastaðar eins og Sjáland því hreint og fallegt umhverfi laðar að viðskiptavini. Eigendur hafa haldið aðkomu snyrtilegri með hreinum gróðurbeðum, stéttum og bílaplani. Það er aðdáunarvert hversu fljótt snyrtilegt umhverfið varð eftir að byggingu lauk.

Umhverfisvidurkenningar_051021-6-Medium-

Snyrtilegasta gatan 2021


Vattarás
Vattarás er fallegur, snyrtilegur og stílhreinn botnlangi út frá Seljuás. Íbúarnir eru samtaka með að halda lóðum sínum snyrtilegum og í samræmi við nærumhverfið.

Umhverfisvidurkenningar_051021-8-Medium-

Vattaras4