18. feb. 2025

Undirbúningur Jazzþorpsins í fullum gangi

Listrænt teymi Jazzþorpsins er nú í óðaönn að undirbúa Jazzþorpið sem verður á Garðatorgi í byrjun maí.

Garðatorg breytist í Jazzþorp dagana 2. – 4. maí þar sem margir af bestu tónlistarmönnum landsins koma fram á tónleikum, erindum og öðrum viðburðum. Listrænt teymi Jazzþorpsins er nú í óðaönn að undirbúa þessa tónlistarveislu. Undirbúningur Jazzþorpsins 2025 hófst raunar strax nokkrum dögum eftir að síðustu hátíð lauk í maí í fyrra.

441235674_427205340038729_1769970022150068871_n

Listrænn stjórnandi þorpsins er Ómar Guðjónsson. Hann vill ekki á þessu stigi gefa upp einstaka viðburði en dagskráin er í vinnslu og margir mjög spennandi viðburðir í farveginum. „Samtal okkar Ómars um atriði á næsta Jazzþorpi er búið að standa í einhvern tíma en það þarf aðeins að gerjast hvernig endanleg útkoma verður“ segir Ólöf Breiðfjörð. menningarfulltrúi Garðabæjar, það er hún sem heldur utan um alla þræði í skipulagningu Jazzþorpsins.

„Það er að mörgu að hyggja varðandi leyfismál, öryggismál og allt skipulag enda margir sem koma að hátíðinni, til dæmis allmargir starfsmenn Garðabæjar en öll sú samvinna hefur verið ótrúlega gefandi – strákarnir í áhaldahúsi og garðyrkjunni eru algjör gull,“ segir Ólöf.

Heimilisleg stemning

„Einstaklingar frá Ásgarði handverkstæði munu fá verkefni sem snúa að enn bættara útliti þorpsins en í fyrra smíðuðu þau til dæmis vegginn bak við litla sviðið og bása fyrir söluaðila. Það er okkar frábæri Hans Vera sem stýrir verkinu en hann á heiðurinn af skiltunum fyrir ofan hvern bás og allri smíðavinnu, hann er jafnframt ljósmyndari hátíðarinnar,“ segir Ólöf.

441327319_982713383673565_1771826935902489084_n

Jazzþorpið mun skarta húsgögnum og munum úr Góða hirðinum sem verða til sölu, líkt og í fyrra, og mun söluágóðinn renna til góðgerðarmála. Þessir munir skapa notalega og heimilislega stemningu á svæðinu. Samstarfið við Góða hirðinn er komið til að vera að sögn Ólafar. „Nú þegar hafa Kristín Guðjónsdóttir upplifunarhönnuður og Halla Kristjánsdóttir hafist handa við að safna gripum sem verða til sölu í Jazzþorpinu en þær eiga heiðurinn af upplifuninni sem veran í þorpinu er.“

439914846_978633993859149_4594378785051431421_n_1739527685589Aðgangur í Jazzþorpið er ókeypis og eru öll velkomin á meðan húsrúm leyfir.