Ungmennahús Garðabæjar komið á laggirnar
Ungmennahús hefur nú verið opnað í Garðabæ. Það var fullt hús á opnunarkvöldinu og greinilegt að bæjarbúar eru áhugasamir um starfsemina. Ragnhildur Jónasdóttir, verkefnastjóri ungmennahúss Garðabæjar, segir starfið fara vel af stað og nú fái það að vaxa og dafna í takti við ungmennin í bænum.
-
Það var fullt hús á opnunarkvöldi ungmennahúss Garðabæjar og greinilegt að bæjarbúar eru áhugasamir um starfsemina. Ragnhildur Jónasdóttir segir starfið fara vel af stað og nú fái það að vaxa og dafna í takti við ungmennin í bænum.
Ragnhildur Jónasdóttir er verkefnastjóri Ungmennahúss Garðabæjar. Þegar hún er spurð út starfsemi ungmennahússins og hugmyndafræðina segir hún: „Ungmennahús á Íslandi eru mikilvægur þáttur í frístunda- og forvarnarstarfi sveitarfélaga sem sérstaklega eru ætluð ungmennum á aldrinum 16–25 ára. Þau byggja á hugmyndafræði félagsmiðstöðva en eru sniðin að eldri hópum, þar sem þátttakendur hafa oft lokið grunnskóla og eru annaðhvort í framhaldsskóla, á vinnumarkaði eða í viðkvæmri stöðu, t.d. utan náms eða vinnu. Ungmennahús Garðabæjar er liður í því að styrkja og efla forvarnir í Garðabæ.“

Klippt á borða! Fulltrúar Ungmennaráðs Garðabæjar hafa unnið hörðum höndum að því að ungmennahús yrði opnað í bænum og verið í þéttu og góðu samtali við íþrótta- og tómstundaráð og bæjarstjórn Garðabæjar.

Ungmennahús Garðabæjar er á Garðatorgi 1.
Ungmennahúsið bætist nú við þá fjölbreyttu flóru íþrótta- og tómstundastarfs í bænum að sögn Ragnhildar. „Þetta er jákvæður vettvangur fyrir ungmenni þar sem þau geta komið saman og tekið þátt í skipulögðu og óskipulögðu starfi sem styrkir þau, hvetur og eflir. Helstu markmið ungmennahúsa og sameiginlegur þráður þeirra um allt land er að skapa öruggt, áfengis- og vímuefnalaust umhverfi þar sem þau geta styrkt sig félagslega, menntað sig óformlega og fengið stuðning við áskoranir sem þau kunna að mæta. Í náinni framtíð verður boðið upp á ráðgjafaþjónustu sem veitir stuðning og ráðgjöf til ungs fólks á þeirra forsendum,“ bætir Ragnhildur við.

Mynd/ Anna Ragnhildur
Mynd/ Anna Ragnhildur
Spennandi tímar framundan
Það var líf og fjör í opnunarpartíinu sem haldið var á dögunum og ljóst að margir íbúar eru spenntir fyrir þessari nýjung. „Viðbrögðin hafa verið einstaklega góð og á opnunarkvöldinu fór mæting fram úr okkar væntingum. Gestir af öllum aldri sýndu mikinn áhuga. Verkefnið fer því mjög vel af stað og erum við mörg orðin spennt fyrir áframhaldinu. Fyrsti dagur almennrar opnunar var þriðjudaginn 20. janúar og við munum byrja á því að hafa opið þriðjudaga, fimmtudaga og föstudaga. Við munum svo vera sveigjanleg og aðlaga starfið í samráði við unga fólkið. Við erum opin fyrir öllum hugmyndum varðandi starfsemi í húsinu,“ segir Ragnhildur og tekur sem dæmi að þar gætu t.a.m. verið ýmiss konar smiðjur, námskeið og klúbbar. Öllum hugmyndum má skila í þar til gert hugmyndabox sem er á staðnum. „Eða bara senda okkur línu á samfélagsmiðlum,“ bætir Ragnhildur við.

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, og Hrannar Bragi Eyjólfsson, formaður ÍTG, sögðu nokkur vel valin orð á opnunarkvöldinu.



„Rík áhersla er lögð á félagslega þróun og tengslamyndun – hér getur ungt fólk kynnst öðrum og myndað vináttu sem hjálpar til við að draga úr einmanaleika, kvíða og vanlíðan. Jafnframt gegna ungmennahús mikilvægu hlutverki í forvörnum og geðheilbrigðisstuðningi með það að markmiði að draga úr brottfalli úr námi og áhættuhegðun. Afþreyingargildi ungmennahúsa er einnig stór partur af starfinu,“ útskýrir Ragnhildur. Hún segir mikilvægt að rýmið sjálft sé lifandi og ýti undir sköpunarkraft.

Mynd/ Anna Ragnhildur
Það er óhætt að segja að Ungmennaráði, Ragnhildi og þeirra teymi hafi tekist vel til við að skapa aðlaðandi rými. Við hönnun, hugmyndavinnu og standsetningu aðstoðaði Anna Ragnhildur, hönnuður. „Rýmið sjálft býður upp á fjölbreytta starfsemi en það er hannað þannig að auðvelt er að laga það að þörfum og stemningu hverju sinni. Í húsinu er svo Myndlistarfélag Garðabæjar, Gróska, og eru ungmennin því með góða nágranna sem hafa tekið komu ungmennahússins fagnandi,“ segir Anna.
Lýðræðisleg þátttaka leikur svo stórt hlutverk.
„Hér fá ungmenni raunverulega rödd í ákvarðanatöku, meðal annars í gegnum ungmennaráð, húsráð og hugmyndabanka fyrir frumlegar og uppbyggilegar hugmyndir. Öll þessi markmið eru í samræmi við réttindi ungs fólks samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ segir Ragnhildur.

Mynd/ Anna Ragnhildur
En hvað á ungmennahúsið að heita? „Það kemur í ljós bráðlega,“ segir Ragnhildur. Á opnunarkvöldinu fór fram skemmtileg hugmyndasöfnun þar sem fólki gafst tækifæri til að skila inn sínum hugmyndum um nafn. Alls bárust 83 tillögur á opnunarkvöldinu og getur fólk nú kosið á milli átta tillagna, á þessum hlekk.

Stóru veggmyndina gerði hönnuðurinn Anna Ragnhildur fyrir ungmennahúsið. Á myndinni má sjá ýmis kennileiti Garðabæjar.