Vinna áfram að því að efla barna- og unglingastarf í golfi
Áfram er unnið markvisst að því að efla barna- og unglingastarf í golfi í Garðabæ.
Garðabær hefur undirritað samstarfssamninga við Golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar, Golfklúbbinn Odd og Golfklúbb Álftaness. Meginmarkmið samstarfsins við golfklúbbana þrjá er að efla áfram barna- og unglingastarf í golfi í Garðabæ.
Með samningum Garðabæjar við golfklúbbanna er lögð sérstök áhersla á að mæta þörfum fatlaðra barna og ungmenna í samræmi við stefnu bæjarins í málefnum fatlaðs fólks. Einnig að vinna áætlun varðandi eineltismál byggða á forvarnarstefnu og samskiptasáttmála Garðabæjar.
„Það hefur verið afar ánægjulegt að sjá hversu mikil ásókn hefur verið í öfluga ungmennastarfið sem golfklúbbarnir bjóða upp á og geta stutt við það,“ segir Almar Guðmundsson um samstarfssamningana við golfklúbbana þrjá. Nýir samningar gilda til ársloka 2025.
Einar Georgsson formaður GÁ, Almar Guðmundsson og Hrannar Bragi Eyjólfsson.

Kári H. Sölmundarson formaður GO, Almar Guðmundsson og Hrannar Bragi Eyjólfsson.
Almar Guðmundsson og Jón Júlíusson formaður GKG handsala samninginn.