Unnur Ösp Stefánsdóttir og Björn Thors eru bæjarlistamenn Garðabæjar 2021
Á menningaruppskeruhátíð Garðabæjar, sem var haldin í Sveinatungu á Garðatorgi miðvikudaginn 2. júní s.l., var tilkynnt um útnefningu bæjarlistamanna Garðabæjar 2021 og í ár eru það hjónin Unnur Ösp Stefánsdóttir og Björn Thors sem hljóta þann heiður.
-
Á myndinni eru frá hægri: Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar, bæjarlistamenn Garðabæjar 2021 Unnur Ösp Stefánsdóttir og Björn Thors ásamt börnum sínum Degi, Birni, Stefáni og Bryndísi, Björg Fenger forseti bæjarstjórnar, Bjarndís Lárusdóttir meðlimur í menningar- og safnanefnd, Ólöf Breiðfjörð menningarfulltrúi, Gunnar Valur Gíslason formaður menningar- og safnanefndar, Þorbjörg Þorvaldsdóttir og Hannes Ingi Geirsson meðlimir menningar- og safnanefndar.
Á menningaruppskeruhátíð Garðabæjar, sem var haldin í Sveinatungu á Garðatorgi miðvikudaginn 2. júní s.l., var tilkynnt um útnefningu bæjarlistamanna Garðabæjar 2021 og í ár eru það hjónin Unnur Ösp Stefánsdóttir og Björn Thors sem hljóta þann heiður. Þau hjónin hafa verið áberandi í íslensku leikhúslífi saman og sitt í hvoru lagi og þar að auki leikið í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Nú síðast hafa þau vakið athygli fyrir leikgerð af sjálfsævisögunni Vertu úlfur sem Unnur Ösp skrifaði og leikstýrði en Björn Thors leikur einleik í verkinu sem sýnt hefur verið fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúsinu að undanförnu. Unnur Ösp og Björn búa í Garðabæ með börnunum sínum fjórum og fjölskyldan, nánir vinir og samstarfsfólk var samankomið í Sveinatungu til að fagna með bæjarlistamönnunum.
Heiðursviðurkenning fyrir ómetanlegt framlag til menningar og lista
Við sama tilefni var Joseph Ognibene hornleikari heiðraður fyrir ómetanlegt framlag til menningar og lista en hann hefur í áratugi búið í Garðabænum en kom til Íslands fyrir 40 árum til að leika með Sinfóníuhljómsveit Íslands en hann er fæddur og uppalinn í Los Angeles. Joseph hefur verið einleikari með Sinfóníuhljómsveitinni og leitt horndeild hennar, kennt og stjórnað nemendum og gefið þannig af sér í áratugi. Við athöfnina hélt Joseph hjartnæma ræðu þar sem hann minntist Hallfríðar Ólafsdóttur flautuleikara sem heiðruð var fyrir ári síðan en lést síðsumars. Þá léku Joseph og félagar hans úr Sinfóníuhljómsveit Íslands tvö lög á fjögur horn, Heyr himnasmiður eftir Þorkel Sigurbjörnsson og Ó, blessuð vertu sumarsól eftir Inga T. Lárusson.
Úthlutað úr Hvatningarsjóði ungra listamanna
Ungir listamenn í Garðabæ fengu úthlutað úr Hvatningarsjóði og í ár voru það 14 ára fiðlunemandinn Austin Ng, Hljómsveitin Pólýfónía og Jóhannes Damian Patreksson myndlistar- og tónlistarmaður sem hlutu styrk. Austin lék einleiksverk á fiðlu við athöfnina við mikla hrifningu viðstaddra en hann er nemandi Auðar Hafsteinsdóttur í Menntaskóla í tónlist.
Gunnar Valur Gíslason, formaður menningar- og safnanefndar Garðabæjar, fór yfir menningarárið sem þrátt fyrir að hafa verið með öðru sniði en venjulega hefur verið gefandi. Nefndi Gunnar Valur sérstaklega móttöku á næstum 3000 skólabörnum í fjölbreytta menningardagskrá í bænum.
Á fésbókarsíðu Garðabæjar má sjá myndalbúm frámenningaruppskeruhátíðinn i og þar má sjá að mikil gleði ríkti á hátíðinni.