24. ágú. 2021

Upphaf grunnskólastarfs á haustönn

Skólasetning grunnskóla í Garðabæ er í dag þriðjudaginn 24. ágúst. Í vetur verða um 2550 nemendur í 1.-10. bekk í öllum grunnskólum Garðabæjar.

Skólasetning grunnskólanna í Garðabæ verður þriðjudaginn 24. ágúst og hefst kennsla skv. stundaskrá 25. ágúst. Í vetur hefja 2550 nemendur nám í 1.-10. bekk í öllum grunnskólum í Garðabæ. Það eru 230 börn sem hefja nám í 1. bekk en þeim hópi var boðið að dvelja á frístundaheimilum skólanna dagana áður en skólastarf hófst til að kynnast nýju umhverfi, húsnæði, skólalóð og starfsfólki skólanna.

Starfsmenn hafa undanfarna daga unnið að skipulagi skólastarfsins og hugað að sóttvörnum í hvívetna. Það verður allt kapp lagt á vogarskálarnar til halda starfseminni órofinni og minnka líkur á því að margir nemendur og kennarar þurfi að fara í sóttkví eða jafnvel í einangrun. Skólasetningar verða því með öðru sniði en við eigum að venjast en hver og einn einstaklingur sem fer inn í húsnæði skólanna þarf að gæta að persónulegum sóttvörnum. Sjá einnig frétt hér á vef stjórnarráðsins um breyttar reglur um sóttkví í skólum.

Gengið vel að fá kennara og starfsfólk til starfa

Það er góð staða í grunnskólum bæjarins hvað varðar mönnun og ráðningar en vel hefur gengið að fá kennara og annað starfsfólk til starfa. Eftir er að ráða starfsmenn í nokkur frístundaheimili og vonandi tekst að fullmanna þar á næstu dögum. Í undirbúningi fyrir skólastarf vetrarins hafa skólar boðið starfsfólki upp á fjölbreytt námskeið fyrir kennara og annað starfsfólk svo sem: Uppeldi til ábyrgðar, skyndihjálp, útikennslunámskeið, leiðsagnarmat og vináttunámskeið.

Frekari upplýsingar um skólastarfið má finna á vefsíðum grunnskóla Garðabæjar .

Margvíslegar úrbætur og framkvæmdir við skóla í sumar

Unnið hefur verið að margvíslegum úrbótum við skóla Garðabæjar í sumar. Lóðaframkvæmdir við 3. áfanga Flataskóla hafa verið í fullum gangi þar sem norðurlóðin var endurnýjuð, dren og yfirborð og sett hafa verið upp ný hjólastæði, sem snúa í átt að Vífilsstaðarvegi. Einnig er verið að setja upp klifurvegg á svæðinu sem var endurnýjað í fyrra. Verklok verða um miðjan september.

Í Urriðaholtsskóla er verið að standsetja list- og verkgreinastofur. Þá hefur verið unnið að lagfæringu á skólalóð skólans en verkið fólst í stækkun á skóla og núverandi skóla- og leikskólalóð. Leiksvæðið var stækkað, settur var nýr kastali og kofar ásamt undirlagi.

Í Garðaskóla var m.a. unnið að lokaframkvæmdum við kaffistofu starfsmanna og unnið að almennu viðhaldi s.s. skipt um glugga og flísar endurnýjaðar á jarðhæðinni. Í Hofsstaðaskóla var unnið að múrviðgerðum við glugga og skipt um glugga í Höllinni. Í Sjálandsskóla var sett læst hlið við bátaskýli, málað og gólf bónuð innanhúss