13. nóv. 2025

Upplestur, spjall og notaleg jólastemning á Jólabókaspjalli bókasafnsins

Árlega Jólabókaspjall bókasafns Garðabæjar fer fram fimmtudaginn 13. nóvember. Rithöfundarnir Sigríður Hagalín Björnsdóttir, Lilja Sigurðardóttir og Hrannar Bragi Eyjólfsson lesa úr nýjustu verkum sínu. 

Árlega Jólabókaspjall bókasafns Garðabæjar fer fram fimmtudaginn 13. nóvember. Rithöfundarnir Sigríður Hagalín Björnsdóttir, Lilja Sigurðardóttir og Hrannar Bragi Eyjólfsson lesa úr nýjustu verkum sínum og eftir það er boðið upp á umræður um skáldverkin. Einnig verður boðið upp á léttar veitingar og huggulegheit. Brynhildur Björnsdóttir stýrir spjallinu. Hefst klukkan 19:30.

Margrét Berndsen Sigurgeirsdóttir, forstöðumaður Bókasafns Garðabæjar, lofar notalegri jólastemningu. „Jólabókaspjallið okkar býður upp á notalega jólastemmingu með frábærum rithöfundum og áhugaverðum umræðum um bækur, lífið og tilveruna. Boðið verður upp á léttar veitingar og huggulegt andrúmsloft,“ segir Margrét sem hvetur alla bókaunnendur til að láta sjá sig. „Komdu, hlæjum, spjöllum og byrjum jólabókaflóðið saman.“

Spjallað um þrjár nýjar bækur

Sigríður Hagalín Björnsdóttir les úr bók sinni Vegur allrar veraldar - skálkasaga, sem er sjálfstætt framhald Hamingju þessa heims - riddarasaga (2022), þar sem koma við sögu Ólöf ríka og aðrar magnaðar persónur og atburðir 15. aldar; aldarinnar sem gleymdist í Íslandssögunni. Einnig var kvikmyndin Eldarnir – ástin og aðrar hamfarir sem er byggð á samnefndri skáldsögu Sigríðar að hefja sýningar í kvikmyndahúsum landsins og hefur fengið góða dóma.

Lilja Sigurðardóttir les úr bók sinni Ɐlfa. Árið 2052 ríkir friður og velsæld. Í 25 ár hefur Ɐlfa stýrt samfélaginu – gervigreind sem nýtir sér gríðarlegt gagnamagn til að leysa úr öllum málum á sem bestan hátt fyrir alla. Á heimili Sabínu og Mekkínar er stór dagur runninn upp. Júlíus sonur þeirra er að verða sextán ára og þá fær hann grædda í sig örflögu til að tengjast Ɐlfa beint eins og aðrir, og eins fær hann að vita hvað honum er ætlað að fást við í framtíðinni, ákvörðun sem Ɐlfa byggir á ítarlegum upplýsingum um hæfni hans og eiginleika. En þegar Birkir, bróðir Sabínu, drukknar við undarlegar aðstæður er ljóst að allt er ekki eins og það sýnist.

Hrannar Bragi Eyjólfsson les úr bók sinni Séra Bragi: Ævisaga. Í þessari ríkulega myndskreyttu ævisögu er rakin ótrúleg ævi Séra Braga Friðrikssonar brautryðjandans sem vígðist fyrstur íslenskra presta til þjónustu meðal Vestur-Íslendinga í Kanada, lagði grunn að æskulýðsstarfi Reykjavíkur og Þjóðkirkjunnar. Séra Bragi stofnaði Ungmennafélagið Stjörnuna, æskulýðs- og skátafélög og var á meðal þeirra sem byggðu samfélag frá grunni í Garðabæ. Hann var kallaður „faðir Garðabæjar“ og var útnefndur fyrsti heiðursborgari bæjarins.

Viðburðurinn á Facebook.