10. nóv. 2025

Uppskeruhátíð kennara og starfsfólks í leik- og grunnskólum

Dagskrá Menntadagsins 2025 var hin glæsilegasta. Boðið var upp á tónlistaratriði, fróðlegan fyrirlestur og fjölbreytt erindi. 


Menntadagur Garðabæjar 2025 var haldinn hátíðlega á föstudaginn en um sannkallaða uppskeruhátíð skólastarfsfólks er að ræða. Um 500 kennarar og starfsfólk í leik- og grunnskólum komu saman í Ásgarði og hlýddu á fyrirlestur og skemmtiatriði áður en haldið var í Flataskóla og Garðaskóla, þar fóru fram fjölbreyttar málstofur sem þátttakendur gátu valið á milli.

Dagskrá Menntadagsins 2025 var hin glæsilegasta. Magnús Stephensen lék ljúfa tóna á píanóið áður en Guðrún Árný tók við með skemmtilegum samsöng.

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnisstýra ofbeldis- og kynheilbrigðismála hjá Barnaheillum, hélt þá áhugaverðan fyrirlestur undir yfirskriftinni Eru öll börn örugg í þorpinu okkar.

Edda Björg Sigurðardóttir, grunn- og tónlistarskólafulltrúi og Hanna Halldóra Leifsdóttir, leikskólafulltrúi. 

Við tilefnið veittu svo leik- og grunnskólanefndir Garðabæjar 11 framúrskarandi verkefnum viðurkenningar í tveimur flokkum, annars vegar í flokknum Nýbreytni, fagmennska og gæði og hins vegar í flokknum Umbætur og framfarir í starfi.

Þetta eru þeir skólar og verkefni sem hlutu viðurkenningu:

  • Lundaból - Raddir barna
  • Hæðarból - Regnbogaskjóður
  • Akrar - Sögupokar
  • Leikskóladeild Urriðaholtsskóla – Drullueldhús
  • Hofsstaðaskóli - Nemendastýrð foreldrasamtöl
  • Sjálandsskóli - Yoga nidra – vellíðan í skólum
  • Urriðaholtsskóli - Byggjum á rannsóknum og reynslu. Morningside módelið
  • 5 ára leikskóladeild Sjálandsskóla - Brú á milli leikskóla og skóla
  • Kirkjuból - Matstofan á Kirkjubóli
  • Álftanesskóli - Breyttir kennsluhættir og samþætting í íslensku og samfélagsfræði
  • Flataskóli - Réttindaskóli og mannréttindi barna

Þá var komið að málstofum dagsins þar sem þátttakendur hlýddu á fjölbreytt erindi um verkefni sem hlotið hafa styrki úr þróunarsjóðum leik- og grunnskóla í Garðabæ undanfarin ár.

Boðið var upp á fjölbreyttar málstofur. 

Vel heppnaður dagur í alla staði. Dagskránni lauk svo í hátíðarsal Flataskóla þar sem þátttakendum gafst tækifæri til að gæða sér á mat og drykk og eiga saman notalega stund.