20. júl. 2018

Uppskeruhátíð og sýningar hjá skapandi sumarstörfum

Skapandi sumarstörf eru hluti af sumarstarfi ungmenna í Garðabæ. Markmiðið með starfinu er að styðja við ungt skapandi fólk í bænum og veita því tækifæri til að vinna á markvissan hátt að verkefnum sínum. 

  • Uppskeruhátíð skapandi sumarstarfa í Garðabæ
    Uppskeruhátíð skapandi sumarstarfa í Garðabæ

Skapandi sumarstörf eru hluti af sumarstarfi ungmenna í Garðabæ. Markmiðið með starfinu er að styðja við ungt skapandi fólk í bænum og veita því tækifæri til að vinna á markvissan hátt að verkefnum sínum. Leiðbeinendur halda utan um starfið og eru þeir þátttakendum innan handar í sköpunarferlinu. Í sumar starfa 14 ungir einstaklingar að listsköpun og menningartengdri starfsemi í bænum.  Ungmennin vinna bæði einstaklings- og hópverkefni við m.a. við tónlist, ljósmyndun, myndlist, myndasögu- og hreyfimyndagerð. Hópurinn er með aðstöðu á Garðatorgi en einnig eru verkefnin unnin víðs vegar um bæinn.

Tilraunagleði og sköpun

Starfið stendur yfir í átta vikur í sumar og á þeim tíma er hvatt til tilraunagleði og sköpunar og að vandað sé til verka við uppsetningu sýninga. Einnig eru ungmennin hvött til að koma verkum sínum á framfæri á viðeigandi stöðum og að temja sér öguð vinnubrögð. Lagt er upp úr því að þátttakendur kynnist einnig ólíkum listformum sem þau geti svo nýtt sér beint eða óbeint í sinni eigin sköpun og hópurinn hefur farið í heimsókn á söfn, sýningar og aðra listviðburði þar sem færni, framsetning og innihald er skoðað á gagnrýnin og uppbyggilegan hátt.

Fjölbreyttar sýningar í sumar

Ungmennin í skapandi sumarstörfum tóku meðal annars þátt í Jónsmessugleði Grósku fyrr í sumar. Einnig verða ungmennin með eina einkasýningu á verkefnum sínum, einstaklings- eða hópaverkefni,  yfir sumartímann á hinum ýmsu stöðum í Garðabæ.  Þar má nefna sýningu sem nú stendur yfir á teikningum á jarðhæð hjúkrunarheimilisins Ísafoldar sem stendur fram í miðjan ágúst, sýningar á teikningum í Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi fram í miðjan ágúst, vegglistaverk í undirgöngunum við Garðaskóla og málverk á göngustíg í Sjálandinu, slagverkstónleika í Tónlistarskóla Garðabæjar 25. júlí kl. 19, fatamarkað á Garðatorgi 27. júlí frá kl. 15-19, tónleika í anddyri Ásgarðs 28. júlí kl. 12:30,  í ágúst verðru leiklestur á söngleik, ljósmyndasýning á Garðatorgi, sýning á Álftaneskaffi. 

Nánari tímasetningar verða auglýstar á fésbókarsíðu skapandi sumarstarfa.  

Lokasýning - uppskeruhátíð fimmtudaginn 26. júlí kl. 16-19 á Garðatorgi

Starfinu lýkur með lokasýningu fimmtudaginn 26. júlí þar sem allir taka þátt og bjóða áhugasömum að sjá afrakstur sumarsins.  Uppskeruhátíðin verður haldin í sýningarsal á Garðatorgi, gengið inn við hliðina á Hönnunarsafni Íslands.  Sýningin stendur yfir frá kl. 16-19 þennan dag.  Aðgangur er ókeypis og bæjarbúar sem og aðrir áhugasamir eru velkomnir á hátíðina. 

Uppskeruhátíð skapandi sumarstarfa - viðburður á facebook.