1. ágú. 2018

Lokahóf Vinnuskóla Garðabæjar

Um 450 ungmenni á aldrinum 13-16 ára unnu í Vinnuskóla Garðabæjar í sumar. Á síðasta starfsdegi var haldið lokahóf þar sem ungmennin leystu ýmsar þrautir.

Um 450 ungmenni á aldrinum 13-16 ára unnu í Vinnuskóla Garðabæjar í sumar. Starf Vinnuskólans er fjölbreytt og þykir mikilvægt að horfa ekki einungis til verka í bænum heldur einnig á almenna vellíðan  barnanna sem unnið er með. Síðustu ár hefur aukin áhersla verið á forvarnargildi starfsins. Starfið hefur gengið vel í sumar og hefur verið í nógu að snúast, þó mikil rigning hafi farið mis vel í fjöldann. 

Á síðasta degi Vinnuskólans er hefð fyrir því að flokkstjórar skipuleggi ratleik fyrir krakkana og var ekki undantekning á því í ár. Stöðvar voru víða um bæinn og kepptust hóparnir við að ljúka öllum stöðvum og safna sér inn stigum. Þrautirnar sem þau þurftu að leysa voru af ýmsum toga, allt frá því að pútta á minigolf vellinum í að lesa úr stafarugli. Þegar allir hópar höfðu skilað sér aftur í Garðaskóla var grillað  og sumrinu fagnað, í þann hálftíma sem sólin skein. 

Flokkstjórar Vinnuskólans þakka krökkunum fyrir krafta þeirra og dugnað og vonast til að þau haldi áfram að vera dugleg í beðunum það sem eftir lifir sumri.