1. okt. 2019

Útikennsla við Vífilsstaðavatn

Umhverfisnefnd Garðabæjar hefur undanfarin 20 ár boðið grunnskólum bæjarins upp á útikennslu um lífríki Vífilsstaðavatns.

  • Útikennsla við Vífilsstaðavatn
    Útikennsla við Vífilsstaðavatn

Umhverfisnefnd Garðabæjar hefur undanfarin 20 ár boðið grunnskólum bæjarins upp á útikennslu um lífríki Vífilsstaðavatns. Bjarni Jónsson fiskifræðingur hefur séð um útikennsluna öll árin en honum til aðstoðar er starfsfólk garðyrkjudeildar.

Á hverju hausti fer 7. bekkur frá Sjálandsskóla, Flataskóla og Hofsstaðaskóla að Vífilsstaðavatni og Vífilsstaðalæk þar sem útikennslan fer fram. Útikennslan við vatnið er liður í náttúrufræðikennslu skólanna en þessa vinsælu fræðslu hefur umhverfisnefnd Garðabæjar boðið upp á síðan 1999.

Heimsfræg hornsíli í Vífilsstaðavatni

Kennslan í ár fór fram dagana 24.-26. september sl. í mildu haustveðri. Kennarar og nemendur komu hjólandi í útikennsluna þar sem Bjarni fræddi þau um lífríki Vífilsstaðavatns. Bjarni sagði meðal annars frá hornsílunum í Vífilsstaðavatni sem eru sérstök að því leyti að þau eru kviðgaddalaus. Vífilsstaðavatn er eitt fárra vatna í heiminum og það eina hér á landi með kviðgaddalaus hornsíli en þau uppgötvaði Bjarni með nemendum í útikennslu við Vífilsstaðavatn haustið 2002. Í dag eru hornsílin úr vatninu heimsfræg á sviði þróunar- og erfðafræða. 

Bjarni sýndi nemendum líka hvernig kryfja á fisk og fræddi þau um leið um aldurs- og kyngreiningu, líffræði, lífeðlisfræði. Nemendur söfnuðu smádýrum af steinum bæði úr Vífilsstaðavatni og Vífilsstaðalæk til að bera saman mismunandi lífríki. Að lokinni útikennslu fengu nemendur silung og smádýrasýni með sér í skólann til nánari rannsókna undir handleiðslu kennara.

Nemendur safna smádýr af steinum við Vífilsstaðavatn

Smádýrin skoðuð í útikennslu við Vífilsstaðavatn

Fiskar fangaðir í útikennslu við Vífilsstaðavatn

Fiskur krufinn í útikennslu við Vífilsstaðavatn