15. okt. 2018

Útikennsla við Vífilsstaðavatn

Umhverfisnefnd Garðabæjar hefur undanfarin ár boðið grunnskólum bæjarins upp á útikennslu um lífríki Vífilsstaðavatns með leiðsögn Bjarna Jónssonar fiskifræðings og aðstoðarfólks garðyrkjudeildar við vatnið.

  • Útikennsla við Vífilsstaðavatn
    Útikennsla við Vífilsstaðavatn

Umhverfisnefnd Garðabæjar hefur undanfarin ár boðið grunnskólum bæjarins upp á útikennslu um lífríki Vífilsstaðavatns með leiðsögn Bjarna Jónssonar fiskifræðings og aðstoðarfólks garðyrkjudeildar við vatnið.

Dagana 3. og 4. október síðastliðinn var haldin útikennsla við Vífilsstaðavatn fyrir 7. bekkinga Flataskóla, Hofsstaðaskóla og Sjálandsskóla. Kennarar og nemendur komu hjólandi í útikennsluna þar sem Bjarni Jónsson fiskifræðingur fræddi þau um lífríki Vífilsstaðavatns. Bjarni sagði meðal annars frá hornsílunum í Vífilsstaðavatni sem eru sérstök að því leyti að þau eru kviðgaddalaus. Vífilsstaðavatn er eitt fárra vatna í heiminum og það eina hér á landi með kviðgaddalaus hornsíli en þau uppgötvaði Bjarni með nemendum í útikennslu við Vífilsstaðavatn haustið 2002. Í dag eru hornsílin úr vatninu heimsfræg á sviði þróunar- og erfðafræða.

Bjarni sýndi nemendum líka hvernig kryfja á fisk og fræddi þau um leið um aldurs- og kyngreiningu, líffræði, lífeðlisfræði og persónuleika fiska. Nemendur söfnuðu smádýrum af steinum bæði úr Vífilsstaðavatni og Vífilsstaðalæk til að bera saman mismunandi lífríki. Að lokinni útikennslu fengu nemendur silung og smádýrasýni með sér í skólann til nánari rannsókna undir handleiðslu kennara.

Útikennsla við Vífilsstaðavatn

Útikennsla við Vífilsstaðavatn