21. jún. 2019

Útilífsmiðstöð rís í Heiðmörk í Garðabæ

Útilífsmiðstöð verður byggð í Heiðmörk í Garðabæ samkvæmt samningi milli Garðabæjar og Skátafélagsins Vífils. Þau Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, og Thelma Rún Van Erven, félagsforingi Skátafélagsins Vífils, undirrituðu samninginn miðvikudaginn 19. júní sl. á þeim stað í Heiðmörk þar sem miðstöðin mun rísa og tóku um leið skóflustungu að nýju útilífsmiðstöðinni. 

  • Frá vinstri: Björn Hilmarsson skátafélaginu Vífli, Thelma Rún van Erven, félagsforingi skátafélagsins Vífils, Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar.
    Frá vinstri: Björn Hilmarsson skátafélaginu Vífli, Thelma Rún van Erven, félagsforingi skátafélagsins Vífils, Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar.

Útilífsmiðstöð verður byggð í Heiðmörk í Garðabæ samkvæmt samningi milli Garðabæjar og Skátafélagsins Vífils. Þau Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, og Thelma Rún Van Erven, félagsforingi Skátafélagsins Vífils, undirrituðu samninginn miðvikudaginn 19. júní sl. á þeim stað í Heiðmörk þar sem miðstöðin mun rísa og tóku um leið skóflustungu að nýju útilífsmiðstöðinni.
Útilífsmiðstöðin verður staðsett við Grunnuvötn í Heiðmörk.

Samkvæmt samningnum úthlutar Garðabær skátafélaginu Vífli lóð í Heiðmörk til að byggja útilífsmiðstöð. Stærð lóðarinnar er um 3000 m2 og gert er ráð fyrir að útilífsmiðstöðin verði um 200 m2að gólffleti og þar að auki er svefnloft um 100 m2. Skátafélagið Vífill stendur að byggingu hússins og ber ábyrgð á framkvæmdunum. Einnig tekur skátafélagið að sér framkvæmdir við aðkomu frá Vífilsstaðahlíð, s.s. lagningu rafmagns og vatnsveitu.

Útilífsmiðstöðin verður tilbúin vorið 2020

Heildarkostnaður við byggingu útilífsmiðstöðvarinnar er um 150 milljónir króna.
Framlag Garðabæjar til verkefnisins nemur þeirri upphæð og verður það greitt til félagsins á næstu þremur árum. Samráðshópur verður skipaður um framgang verkefnisins en gert er ráð fyrir að húsið verði tilbúið vorið 2020.

Sigurður Hallgrímsson, hjá Arkþing arkitektum, er hönnuður hússins og Verkís sér um verkfræðilega hönnun og ráðgjöf og svo sér Hnullungur ehf um jarðvegsvinnu og vegagerð.
Útilífsmiðstöð skáta í Heiðmörk

Fjölbreytt uppeldisstarfssemi í anda skátahreyfingarinnar

Árið 2007 undirrituðu Garðabær og skátafélagið Vífill viljayfirlýsingu um samstarf við uppbyggingu á slíkri miðstöð í Heiðmörk í tilefni af 40 ára afmæli félagsins á þeim tíma. Nú er uppbyggingin hafin og með tilkomu útilífsmiðstöðvarinnar skapast betri möguleikar á að efla áhuga barna og unglinga á starfsemi skátafélagsins enda verður húsnæðið notað til að starfrækja fjölbreytta uppeldisstarfsemi í anda skátahreyfingarinnar.

Garðabær getur jafnframt notað húsnæðið fyrir tómstunda- og fræðslustarfsemi á vegum leik- og grunnskóla bæjarins. Jafnframt lýsa samningsaðilar yfir áhuga á að húsnæðið verði nýtt sem áningarstaður í útivist almennings t.d. í skipulögðum útivistarviðburðum í Heiðmörk á vegum bæjarfélagsins og skátafélagsins.