27. mar. 2020

Útivist og gönguleiðir í Garðabæ – gönguleiðir í Wapp-inu

 Í Garðabæ eru margar skemmtilegar gönguleiðir bæði í þéttbýli sem og utan. Undanfarin ár hafa Garðabær og Wapp (Walking app) verið í samstarfi um birtingu gönguleiða eða svokallaðra söguleiða auk hreyfileiða, þ.e. hjóla- og hlaupaleiða, í Garðabæ í leiðsagnarappinu Wappinu. Leiðirnar í Garðabæ eru notendum smáforritsins Wapp að kostnaðarlausu í boði Garðabæjar.

  • Gönguleiðir í Garðabæ í Wappinu
    Gönguleiðir í Garðabæ í Wappinu

Þessa dagana eru margir Garðbæingar sem og landsmenn að stunda útiveru og fara í gönguferðir til að fá hreyfingu og njóta líðandi stundar. Í Garðabæ eru margar skemmtilegar gönguleiðir bæði í þéttbýli sem og utan.

Kortavefur Garðabæjar, map.is/gardabaer

Á vef Garðabæjar, gardabaer.is, er flýtileið inn á kortavef bæjarins map.is/gardabaer þar sem hægt er að fjölmargar upplýsingar um bæjarlandið. Til að nota hina ýmsum möguleika á kortinu sem þar birtist þarf að haka í viðkomandi reit í upplýsingaglugga efst til hægri og þá birtast upplýsingarnar á kortinu. Þar er t.d. hægt að haka við ,,Samgöngur“ hægra megin og svo velja göngustíga eða útivsitarstíga til að sjá gönguleiðir í bænum. Einnig er í boði að mæla vegalengdir á kortinu með því að fara í mælistiku efst uppi hægra megin á kortavefnum.

Snjómokstur á göngustígum

Á meðan snjóþungt er eru stofnstígar, þ.e. breiðir göngu- og hjólastígar sem tengja saman bæjarhluta, í forgangi í hreinsun en svo er farið í megingönguleiðir að strætóskýlum og skólum. Ef mikið hefur snjóað er líka stundum farið út um helgar til að létta á malbikuðum göngustígum. Þröngir göngustígar í eldri hverfum eru að öllu jöfnu ekki mokaðir enda erfitt að fara þar um með vélar vegna þrengslna. Reynt er þó að bregðast við ábendingum eins og kostur er. Upplýsingar um þær götur og stíga sem eru í forgangi varðandi snjómokstur má sjá á kortavef Garðabæjar, map.is/gardabaer .

Wapp – gönguleiðsagnarapp í símann

Undanfarin ár hafa Garðabær og Wapp (Walking app) verið í samstarfi um birtingu gönguleiða eða svokallaðra söguleiða auk hreyfileiða, þ.e. hjóla- og hlaupaleiða, í Garðabæ í leiðsagnarappinu Wappinu. Leiðirnar í Garðabæ eru notendum smáforritsins Wapp að kostnaðarlausu í boði Garðabæjar.
Í Wapp-inu má finna bæði sk. söguleiðir sem eru leiðir með leiðsögn þar sem upplýsingapunktar á réttum stöðum veita upplýsingar í texta og mynd. Upplýsingarnar snerta það sem ástæða þykir til að segja frá í náttúru og umhverfi, úr þjóðsögum eða af lífi fólks á svæðinu fyrr og nú. Einnig eru í wappinu nokkrar hreyfileiðir, hlaupa- og hjólaleiðir í Garðabæ.

Wappið er stafrænn gagnagrunnur leiðarlýsinga á Íslandi sem er miðlað í gegnum app fyrir Iphone og Android snjallsíma. Á forsíðu, http://www.wapp.is/ eru hlekkir beint á App Store og Play Store til að sækja Wappið. Athugið allar leiðirnar í Garðabæ eru í boði Garðabæjar. Smellt er á "kort" þegar leiðin hefur verið opnuð og á "já" við spurningunni "Viltu kaupa þessa ferð?" Leiðin kemur þá upp endurgjaldslaust.

Vonast er til að gönguleiðir Garðabæjar í Wapp-inu auðveldi íbúum Garðabæjar sem og öðrum að nálgast upplýsingar um áhugaverðar gönguleiðir, sögulegan fróðleik um menningarminjar og útivistarmöguleika í landi Garðabæjar og hvetji til aukinnar hreyfingar og útiveru.