10. maí 2022

Úttekt vegna starfsemi sem fram fór í daggæslu og á leikskóla

Í desember 2021 ákvað Garðabær að gera úttekt á starfsemi sem fram fór í daggæslu og á leikskóla sem hjónin Beverly Sue Gíslason og Einar Gíslason ráku í Garðabæ með hléum á árunum 1996-2014 og verklagi sveitarfélagsins vegna starfseminnar.

  • Séð yfir Garðabæ
    Séð yfir Garðabæ

Í desember 2021 ákvað Garðabær að gera úttekt á starfsemi sem fram fór í daggæslu og á leikskóla sem hjónin Beverly Sue Gíslason og Einar Gíslason ráku í Garðabæ með hléum á árunum 1996-2014 og verklagi sveitarfélagsins vegna starfseminnar.

Tilurð úttektarinnar var fjölmiðlaumfjöllun á síðasta ári um aðbúnað og meðferð á vistheimili sem umrædd hjón ráku á Hjalteyri á áttunda áratug síðustu aldar, en fólk sem dvaldi þar í æsku hefur sagt frá illri meðferð sem það sætti meðan á dvöl stóð.

Garðabær hvatti hlutaðeigandi aðila, s.s. foreldra og börn sem voru í daggæslu og á leikskóla hjá þeim hjónum að hafa samband við Garðabæ og var það gert með upplýsingum á vef Garðabæjar sem og í fjölmiðlaumfjöllun í nóvember og desember á síðasta ári.

EAÞ ráðgjöf (Ellý Alda Þorsteinsdóttir) var fengin til að gera úttektina fyrir Garðabæ og niðurstöður úttektarinnar voru kynntar í bæjarráði Garðabæjar þriðjudaginn 3. maí 2022. Unnið var úr upplýsingum sem fyrir lágu hjá Garðabæ um starfsemi hjónanna. Þá var farið yfir verklag tengt umræddri starfsemi, skoðað hvort verklagi væri fylgt og hvort verklagið væri með öðrum hætti nú en áður.

Meginniðurstaða úttektarinnar

Meginniðurstaða úttektarinnar er að á grunni þeirra gagna sem safnað hefur verið liggja ekki fyrir upplýsingar eða vísbendingar um að umrædd hjón hafi beitt þau börn sem voru í vistun hjá þeim ofbeldi á þeim tíma sem þau voru dagforeldar og ráku leikskóla í Garðabæ fyrir utan lýsingar á tveimur atvikum frá einum starfsmanni sem starfaði hjá hjónunum um tveggja vikna skeið árið 2007. Í greinargerð er að finna ákveðna fyrirvara sem mikilvægt er að hafa í huga varðandi niðurstöðuna.

Í úttektinni er sérstök grein gerð fyrir því hvernig eftirliti var háttað á sínum tíma og breyttu verklagi samkvæmt verklagsreglum sem nú eru lagðar til grundvallar.

Á fundi bæjarráðs var samþykkt að kynna úttektina fyrir foreldrum og öðrum aðilum sem rætt var við í tengslum við gerð hennar.

Aðspurður um niðurstöður úttektarinnar segir Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar ,,Starfsfólk Garðabæjar átti gott samstarf við úttektaraðilann og við lögðum okkur fram við að finna til þær upplýsingar sem lágu fyrir hjá bænum varðandi starfsemi hjónanna á sínum tíma. Meirihluti þeirra foreldra og aðstandenda sem hafði samband við okkur í byrjun úttektarinnar lýstu jákvæðri upplifun af dvöl barna hjá hjónunum í daggæslu eða á leikskóla á sínum tíma en þó voru þar örfáir aðilar sem lýstu neikvæðri reynslu og öll frávik eru einu tilfelli of mikið. Hlutaðeigandi aðilar, s.s. foreldrar eða börn sem voru í leikskóla eða í daggæslu hjá þeim hjónum í Garðabæ, geta áfram haft samband við bæjarskrifstofur Garðabæjar.“

Úttekt vegna starfsemi sem fram fór í daggæslu og á leikskóla sem rekin varí Garðabæ með hléum á árunum 1996-2014