20. jún. 2019

Vegagerðin flytur í Garðabæ

Vegagerðin stefnir að því að flytja höfuðstöðvar sínar í Garðabæ á næsta ári. 

  • Drög að útliti nýrra höfuðstöðva Vegagerðarinnar að Suðurhrauni 3
    Drög að útliti nýrra höfuðstöðva Vegagerðarinnar að Suðurhrauni 3

Vegagerðin stefnir að því að flytja höfuðstöðvar sínar í Garðabæ á næsta ári.
Lóðin sem um ræðir er að Suðurhrauni 3 í Garðabæ og þar er fyrir húsnæði sem verður að hluta rifið og að hluta endurbætt. Vegagerðin og FSR (Framkvæmdasýsla ríkisins) hafa ákveðið að ganga til samninga við fyrirtækið Reginn um nýtt húsnæði fyrir Vegagerðina þar. Í Suðurhrauni er gert ráð fyrir skrifstofubyggingu sem verður á þremur hæðum með inngarði. Húsnæði fyrir aðra starfsemi verður endurgert.

Frumdrög að útliti má sjá á meðfylgjandi myndum með frétt en þó er líklegt að einhverjar breytingar verði gerðar á hönnuninni til að það henti Vegagerðinni sem best. Reginn er í samstarfi við arkitektastofuna Batteríið sem sér um hönnun í samráði við Vegagerðina og FSR. Byggt verður á þarfagreiningu fyrir nýtt húsnæði Vegagerðarinnar sem unnin var af starfsfólki Vegagerðarinnar í samráði við FSR. Reikna má með að það taki 10-14 mánuði að fullgera húsnæðið og þá ætti Vegagerðin að geta flutt inn.

Mikil áhersla er lögð á að umhverfið í kringum húsnæði stofnunarinnar verði snyrtilegt og unnið verður að því að bæta ásýnd lóðanna í samvinnu við lóðarhafa á athafnasvæðum í kring. Garðabær fagnar komu Vegagerðinnar og býður þennan fjölmenna vinnustað velkominn í bæinn.

Drög að útliti nýrra höfuðstöðva Vegagerðarinnar að Suðurhrauni 3