23. nóv. 2021

Vegna umfjöllunar um málefni hjóna sem störfuðu í Garðabæ

Umfjöllun um málefni hjóna og frásagnir af ofbeldi af þeirra hálfu, meðan þau ráku barnaheimili á Hjalteyri á áttunda áratugnum hefur verið áberandi í fjölmiðlum undanfarna daga. Umrædd hjón starfræktu leikskóla og voru dagforeldrar í Garðabæ um tíma

  • Séð yfir Garðabæ
    Séð yfir Garðabæ

Umfjöllun um málefni hjóna og frásagnir af ofbeldi af þeirra hálfu, meðan þau ráku barnaheimili á Hjalteyri á áttunda áratugnum hefur verið áberandi í fjölmiðlum undanfarna daga.

Umrædd hjón starfræktu leikskóla og voru dagforeldrar í Garðabæ um tíma á árunum 1998-2015.

Í ljósi þess sem fram hefur komið er vinna hafin við að afla nánari upplýsinga um störf þeirra sem dagforeldra og um leikskólareksturinn sem fram fór í Garðabæ.

Garðabær lítur málið afar alvarlegum augum og mun einnig skoða með hvaða hætti má kalla til hlutlausan utanaðkomandi aðila til að gera úttekt á þeirri starfsemi sem fram fór innan leikskóla og í daggæslu sem umrædd hjón störfuðu við.

Hlutaðeigandi aðilum, s.s. foreldrum eða börnum sem voru í leikskóla eða í daggæslu hjá þeim hjónum í Garðabæ, er velkomið að hafa samband við bæjarskrifstofur Garðabæjar vegna málsins í s. 525 8500 eða senda tölvupóst á netfangið gardabaer@gardabaer.is með fyrirspurnum, ábendingum eða óskum um samtal og/eða ráðgjöf. Einnig er hægt að hafa beint samband við Anný Rós Ævarsdóttur félagsráðgjafa á fjölskyldusviði Garðabæjar í netfangi annyaev@gardabaer.is