6. júl. 2020

Veiði bönnuð í Urriðavatni

Urriðastofninn í Urriðavatni er mjög viðkvæmur og því er öll veiði bönnuð í vatninu.  Leyfilegt er að veiða í Vífilsstaðavatni með veiðileyfi.

Ástand urriðastofnsins í Urriðavatni er talið gott en stofninn er mjög viðkvæmur fyrir veiði þar sem nýliðun urriðans er takmörkuð í vatninu og er því öll veiði bönnuð í Urriðavatni. Urriðavatn og lífríki þess er sannkölluð náttúruperla og mikilvægt að vernda það sem slíkt.

Urriðavatn er hraunstíflað vatn með votlendisflákum að sunnan- og norðanverðu og er þar mikið fuglalíf. Vatnið og svæði umhverfis það njóta bæjarverndar vegna lífríkis og útivistargildis.

 

Leyfilegt er að veiða í Vífilsstaðavatni

Leyfilegt er að veiða í Vífilsstaðavatni og stendur veiðitímabilið yfir frá 1. apríl til 15. september. Stangveiðileyfi í Vífilsstaðavatni eru seld með veiðikortinu á sölustöðum N1, Olís og veiðivöruverslunum um land allt. Veiðikortið má einnig kaupa á vef veiðikortsins og er kortið þá sent með pósti kaupanda að kostnaðarlausu. Veiðikortið kostar 7.900 krónur og veitir aðgang að 34 vatnasvæðum vítt og breitt um landið. Vinsamlega athugið að veiðikortið gildir eingöngu fyrir eina stöng, en börn yngri en 14 ára veiða frítt í fylgd korthafa.

Nánari upplýsingar um veiðikortið og Vífilsstaðavatn má finna á vef veiðikortsins www.veidikortid.is

Dagsveiðileyfi í Vífilsstaðavatni er hægt að kaupa á 1000 kr. Millifært er inn á reikning 0318-26-50, kt. 5701696109 með skýringunni "Veiðileyfi". Þá er nægilegt að sýna millifærslustaðfestingu til veiðivarða á veiðidegi en leyfilegt er að veiða í vatninu frá kl. 8:00 til kl. 24:00. Frekari upplýsingar má nálgast í þjónustuveri Garðabæjar í síma 525-8500, þar er einnig hægt að greiða fyrir veiðileyfið með peningum.

Veiðimenn og útivistarfólk er vinsamlegast beðið um að ganga vel og snyrtilega um friðlandið og alls ekki henda girni, krókum né rusli á jörðina þar sem það er stórhættulegt fuglalífinu.

Nánari upplýsingar um veiði í Vífilsstaðavatni https://www.gardabaer.is/mannlif/veidileyfi/

Urridavatn-skilti-2