23. jún. 2020

Vel heppnað hreinsunarátak

Árlegt hreinsunarátak Garðabæjar var haldið dagana 7. – 21. maí sl. og um 30 hópar tóku þátt og hreinsuðu m.a. opin svæði og strandlengjur.

  • Hreinsunarátak 2020 íbúar í Prýðahverfi
    Hreinsunarátak 2020 - íbúar í Prýðahverfi

Árlegt hreinsunarátak Garðabæjar var haldið dagana 7. – 21. maí sl. nokkrum vikum síðar en undanfarin ár til að geta fylgt eftir gildandi fjöldatakmörkunum vegna Covid-19 faraldursins. 

Íbúasamtök, nágrannar, félagasamtök og skólar í bænum hafa verið hvött til að taka þátt í hreinsunarátakinu undanfarin ár með það að markmiði að Garðabær verði snyrtilegasti bær landsins.
Þau félög eða hópar sem tóku þátt í hreinsunarátakinu gátu sótt um hvatningarstyrk til að halda t.d. grillveislu í lok góðrar tiltektar. Að auki voru íbúar bæjarins hvattir til að sýna gott fordæmi með því að hugsa vel um nærumhverfi sitt og halda því snyrtilegu. Bæjarstarfsmenn sáu um að hirða alla poka og annað sem féll til við ruslatínsluna.

30 hópar voru með í hreinsunarátakinu

Í ár sóttu 30 hópar um að fá úthlutað svæði til hreinsunar, þar af fjórir á Álftanesi. Á Álftanesi voru þátttakendur t.d. kvenfélag, Lionsklúbbur og íþróttafélag. Þar sem úthlutuð svæði eru tiltölulega stór þá náðist að dreifa hópunum yfir stór svæði þar sem opin svæði og fjörur voru hreinsaðar.
Í innbæ Garðabæjar voru 26 hópar sem tóku þátt þar á meðal voru félagasamtök, íþróttafélag, íbúasamtök, húsfélög, leikskólar, grunnskólar, fjölskyldur, kvennakór og plokkarar. 

Úthlutuð svæði dreifðust nokkuð vel um bæinn eins og t.d. opin svæði, lækjarsvæði, strandlengja Arnarness og Arnarnesvogur. Bæjarfulltrúar tóku þátt í hreinsunarátakinu og sýndu gott fordæmi með því að hreinsa svæðið umhverfis Ásgarð ásamt lækjarsvæði.

Hreinsunaratak140520_baejarfulltruar-4-_vefurAðeins færri hópar tóku þátt í hreinsunarátakinu í ár en undanfarin ár og ef til vill má rekja þá fækkun til ástandsins í þjóðfélaginu vegna COVID-19 faraldursins. Vegna samkomubannsins þurfti að fylgja gildandi reglum um fjölda í hóp og fjarlægð á milli þátttakenda. En eins og fram hefur komið voru úthlutuð svæði tiltölulega stór og var því ekki mikið mál fyrir þátttakendur að halda fjarlægð sín á milli.

Allir sem tóku þátt í hreinsunarátakinu eru færðar bestu þakkir fyrir. Meðfylgjandi myndir með frétt eru af nokkrum hópum sem tóku þátt í átakinu í ár.

Hreinsunarátak 2020 húsfélög í Kirkjulundi og Garðatorgi

Hreinsunarátak 2020 Kvenfélag Garðabæjar

Hreinsunarátak 2020 Kvenfélag Álftaness