1. des. 2025

Vel heppnað PMTO foreldranámskeið í Garðabæ

Velferðarsvið Garðabæjar stóð fyrir 8 vikna PMTO foreldranámskeiði í september og október síðastliðnum. Næsta námskeið verður haldið í byrjun mars 2026.

Velferðarsvið Garðabæjar stóð fyrir 8 vikna PMTO foreldranámskeiði í september og október síðastliðnum. Alls sóttu 20 foreldrar 11 barna námskeiðið en kennt var einu sinni í viku, tvær og hálfar klukkustundir í senn.

PMTO (e. PMTO-stendur fyrir Parent Management Training – Oregon) er gagnreynd aðferð sem kennir foreldrum að notast við styðjandi leiðir í uppeldinu. Á námskeiðinu fengu foreldrar kennslu á verkfærum sem þeir gætu nýtt til árangurs í uppeldinu, en lögð var áhersla á hvatningu til að kenna og ýta undir æskilega hegðun. Farið var yfir verkfæri eins og skýr fyrirmæli, mörk, tilfinningastjórn, eftirlit og lausnaleit. PMTO er ætlað foreldrum barna með hegðunar- og/eða tilfinningavanda en foreldrar sem sótt hafa námskeið hafa lýst að námskeiðið nýtist öllum foreldrum barna á aldrinum 4-12 ára.

Frásagnir foreldra á námskeiðinu:

Mjög áhugavert. Er öruggari með fleiri verkfæri til að takast á við krefjandi hegðun og stuðla að góðum og skilvirkum samskiptum.“

„Meiri tilfinningastjórn og þolinmæði gagnvart börnunum og fleiri verkfæri í verkfærakistuna gagnvart óæskilegri hegðun.“

„Vel skipulagt námskeið og mjög góð ráð.“

„Mér fannst námskeiðið frábært og lærði helling sem ég mun nýta mér.“

„Ótrúlega ánægð með þetta námskeið, virkilega góðar venjur sem koma til með að nýtast okkur helling“.

Næsta námskeið verður haldið í byrjun mars 2026.

PMTO foreldranámskeið er liður í að efla snemmtækan stuðning fyrir foreldra í Garðabæ. Námskeiðin styrkja foreldra í uppeldishlutverkinu og veita hagnýt verkfæri til að takast á við daglegar áskoranir, sem er mikilvægur þáttur í farsældarþjónustu. Áhersla er á forvarnir og stuðning við fjölskyldur.

Leiðbeinendur á námskeiðinu verða Berglind B. Sveinbjörnsdóttir, uppeldisfræðingur M.ed. og PMTO-meðferðaraðili, og Stefanía Dögg Jóhannesdóttir, uppeldisfræðingur M.A. og PMTO-meðferðaraðili.

Skráningar fyrir næsta námskeið fara fram í gegnum Þjónustugátt Garðabæjar á eyðublaði undir „05. Félagsþjónusta“, merkt PMTO foreldrafærni.

Frekari upplýsingar í síma 525-8500 eða á netfangið berglindsv@gardabaer.is