13. nóv. 2024

Vel heppnaður og fróðlegur fræðslufundur

Dagskrá kvöldsins samanstóð meðal annars af þremur áhugaverðum fyrirlestrum.

Góð mæting var á fræðslufund sem haldinn var í Sjálandsskóla með foreldrum og forráðafólki barna og unglinga í Garðabæ. „Veist þú hvað barnið þitt er með í bakpokanum?“ var yfirskrift fundarins sem haldinn var í tengslum við forvarnarviku Garðabæjar sem stóð yfir dagana 1. - 8. nóvember 2024.

Dagskrá kvöldsins samanstóð meðal annars af þremur áhugaverðum fyrirlestrum.

Fyrirlesarar kvöldsins.

Fulltrúar frá Samfélagslöggunni, forvarnarverkefni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, mættu og buðu upp erindi þar sem var farið yfir fróðlega afbrotatölfræði.

Sigríður Elísabet Ragnarsdóttir forstöðumaður í félagsmiðstöðinni Elítunni hélt einnig fyrirlestur og fræddi viðstadda um hlutverk félagsmiðstöðva og ávinning þess fyrir unglinga að stunda það starf sem boðið er upp á í félagsmiðstöðvum.

Að því loknu hélt fjölmiðlafræðingurinn Skúli B. Geirdal, verkefnastjóri hjá fjölmiðlanefnd, afar áhugavert erindi undir yfirskriftinni „Stýrir algóritminn uppeldi þinna barna?“. Þar fór hann yfir þær áskoranir sem blasa við þegar snjallsímar, samfélagsmiðlar, gervigreind og algóritmi er annars vegar.

Eftir það var opnað fyrir umræður, þar sem viðstöddum gafst tækifæri til að varpa fram spurningum til fyrirlesara, áður en Hrannar Bragi Eyjólfsson formaður ÍTG sagði nokkur orð og minnti meðal annars á forvarnargildið sem felst í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi barna og unglinga.

Vel heppnaður og fróðlegur fundur í alla staði. 

Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar bauð gesti velkomna.

Hrannar Bragi Eyjólfsson formaður ÍTG lokaði fundinum.