29. nóv. 2022

Vel heppnuð aðventuhátíð á Garðatorgi

Óhætt er að segja að góð stemning hafi einkennt aðventuhátíð Garðabæjar sem fór fram á Garðatorgi þann 26. nóvember sl.

Óhætt er að segja að góð stemning hafi einkennt aðventuhátíð Garðabæjar sem fór fram á Garðatorgi þann 26. nóvember sl. Hátíðin hófst með Barnakór Vídalínskirkju en síðan hélt tónlistardagskrá áfram á litlu sviði á Garðatorgi 4. Þar komu fram þær Tinna Margrét Hrafnkelsdóttir, Guðrún Ágústa Gunnarsdóttir og Bryndís Magnúsdóttir sem kalla sig Garðasystur. Þá komu einnig fram þeir Matthías Helgi Sigurðarson og Einar Örn Magnússon. 

Handverksmarkaður og matarmarkaður slógu sannarlega í gegn meðal gesta sem eflaust hafa keypt ýmislegt til jólanna. Á Hönnunarsafni Íslands var margt um manninn en þar gátu gestir gert sína eigin merkimiða en á Bókasafni Garðabæjar safnaðist fólk saman til að búa til jólakúlur úr endurunnum bókum og tímaritum. Þá var boðið upp á jólasöngleik á bókasafninu sem gladdi marga. 

Jólaball með jólasveinum fór svo fram á Garðatorgi 7 og allir tóku undir í söng og dansi í kringum tréð. Hátíðinni lauk með fallegum tónum Blásarasveitar Tónlistarskóla Garðabæjar við fallega jólatréð á Garðatorgi.

Sú nýbreytni var tekin upp að kveikt var á ljósum jólatrésins daginn áður en yfir 200 leikskólabörn komu saman til að njóta stundarinnar ásamt Almari Guðmundssyni bæjarstjóra og Björgu Fenger formaður bæjarráðs en fjórir jólasveinar aðstoðuðu hópinn við verkið og gáfu börnunum mandarínu að lokinni tendrun.

Þá eru fleiri skemmtilegir viðburðir framundan á aðventunni t.d:

Hildigunnur Einarsdóttir syngur inn jólin

Miðvikudaginn 7. desember 12:15 verða aðventutónleikar í sal Tónlistarskóla Garðabæjar. Það er hin silkimjúka mezzósópranrödd Hildigunnar Einarsdóttur við meðleik Guðrúnar Dalíu Salomónsdóttur sem gefa gestum Tónlistarnæringar yndislega upplifun með jólatónlist eftir íslenska og erlenda höfunda. Aðgangur er að venju ókeypis en tónleikarnir eru um 30 mínútna langir.

Jólastjörnugerð í Hönnunarsafninu 

Myndlistarkonan Jóhanna Ásgeirsdóttir leiðir smiðju í Hönnunarsafninu sunnudaginn 4. desember frá klukkan 13 en viðfangsefnið er jólastjörnugerð í anda bréfaskóla Einars Þorsteins. Smiðjan er ætluð allri fjölskyldunni og verður eflaust gaman að sjá fallegar stjörnur í gluggum Garðbæinga að lokinni smiðjunni. Þátttaka er ókeypis og öll velkomin.